Innlent

Róbert sá þriðji til að að­stoða Heiðu á rúmu hálfu ári

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Róbert starfaði meðal annars sem aðstoðarmaður ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna á tímum kórónuveirufaraldursins.
Róbert starfaði meðal annars sem aðstoðarmaður ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna á tímum kórónuveirufaraldursins. Vísir/Vilhelm

Róbert Marshall, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Heiðu Bjargar Hilmisdóttir borgarstjóra. Róbert hefur komið víða við á sínum starfsferli og hefur meðal annars verið aðstoðarmaður ríkisstjórnar, fjallaleiðsögumaður og starfað við fjölmiðla. Róbert er þriðji aðstoðarmaður Heiðu Bjargar síðan hún tók við embætti borgarstjóra í febrúar. Róbert hefur störf í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en í síðustu viku hætti Ágúst Ólafur Ágústsson, annar fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sem aðstoðarmaður borgarstjóra þegar hann tók við starfi aðstoðarmanns mennta- og barnamálaráðherra.

Sjá einnig: Hættir hjá borgar­stjóra og að­stoðar nú ráð­herra

„Róbert var upplýsingafulltrúi rikisstjórnarinnar meginhluta áranna 2020 og 2021 á meðan Covid 19 gekk yfir. Hann starfaði við fjölmiðla um árabil og var aðstoðarmaður samgönguráðherra áður en hann settist á þing árið 2009. Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og fyrrverandi forstöðumaður fréttasviðs 365. Hann stundaði fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum og er stúdent frá framhaldsskólanum þar,“ segir í tilkynningu borgarinnar um ráðninguna.

„Á þingi gegndi hann meðal annars þingflokksformennsku, formennsku í allsherjarnefnd, formennsku í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og sat í umhverfis- og samgöngunefnd, Þingvallanefnd og Norðurlandaráði.“

Katrín M. Guðjónsdóttir hætti sem aðstoðarmaður borgarstjóra í maí eftir aðeins um tvo mánuði í starfi. Þá gegndi Ágúst Ólafur starfinu í tæpa þrjá mánuði áður en hann söðlaði um og varð aðstoðarmaður Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, í síðustu viku.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×