Innlent

Land­helgis­gæslan bíður eftir rúss­nesku skipi

Eiður Þór Árnason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun flytja skipverjann á sjúkrahús.
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun flytja skipverjann á sjúkrahús. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar bíður eftir því að rússneskt fiskiskip með veikan skipverja færi sig nær landinu. Tilkynning barst fyrst um veikindin í morgun en skipið var þá staðsett djúpt norðaustur af landinu.

„Skipið var töluvert frá landi og óskaði eftir aðstoð en engu að síður næst Íslandi. Það var ákveðið að skipið myndi snúa við á sinni ferð og sigla inn í íslensku efnahagslögsöguna,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Um sé að ræða bráð veikindi sem kalli á að skipverjanum sé komið sem fyrst á sjúkrahús.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út um sjöleytið í kvöld og flaug fyrst á gistiheimili á Þórshöfn. Þar mun áhöfnin gista og bíða eftir því að skipverjar komi nógu nálægt landi. Gert er ráð fyrir því að þyrlusveitin leggi af stað snemma í fyrramálið eða í nótt og sæki veika skipverjann.

Óvanaleg aðgerð

„Þetta er töluvert flækjustig í ljósi þess að skipið er svona langt frá landi og það þarf þá að bíða eftir því að það sigli inn í íslenska efnahagslögsögu og komi síðan inn í dragi þyrlunnar,“ segir Ásgeir. Hann á von á því að aðgerðin klárist um fimmleytið í fyrramálið þegar þyrlusveitin leggi af stað frá Þórshöfn.

Ásgeir segir þetta að mörgu leyti frekar óvanalegt þar sem það sé sjaldan sem aðgerðir þyrlusveitarinnar fari fram í tveimur lotum líkt og nú.

„En af því að skipið er á þannig stað þá er þetta heppilegasta leiðin til að koma viðkomandi sem fyrst undir læknishendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×