Skoðun

Ó­hjá­kvæmi­leg vin­áttuslit vinstri­sinna og íslam­ista

Finnur Th. Eiríksson skrifar

Þegar umdeild málefni eru rædd er vissara að hafa hugtakanotkun á hreinu. Mig langar því að undirstrika að hugtökin íslam og íslamismi eru ekki samheiti. Íslam er trú en íslamismi er pólitísk hugmyndafræði. Það er ekki ætlun mín að alhæfa um múslima sem trúarhóp. Þeir eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Þessi grein felur hins vegar í sér afgerandi fullyrðingar um íslamisma, sem byggir á skýrt afmarkaðri hugmyndafræði. Samkvæmt íslamisma eiga lög og reglur samfélagsins að byggja á trúarlegum lagabálki sem kallast sjaríalög. Þar sem íslamistar ráða ríkjum er þar af leiðandi enginn aðskilnaður ríkis og trúar. Að því sögðu, langar mig að beina athyglinni að einhverjum furðulegustu pólitísku vináttuböndum allra tíma – vináttuböndum vinstrisinna og íslamista.

Um árabil átti Jeremy Corbyn, fyrrum leiðtogi breska verkamannaflokksins, náin tengsl við yfirvöld í Íran, Hamassamtökin í Palestínu og Bræðralag múslima. Þrátt fyrir að Corbyn hafi haldið sig nokkuð til hlés undanfarið, hefur fylgispekt skoðanabræðra hans við íslamista sjaldan verið jafn áberandi. Fyrir nokkru var gamalt bréf hryðjuverkamannsins Osama bin Laden vakið aftur til lífsins af róttækum ungmennum á TikTok. Þessi sömu ungmenni virðast einnig vera hliðholl Hamassamtökunum í Palestínu, þrátt fyrir að liðsmenn Hamas hafi myrt, rænt og nauðgað fjölda fólks fyrir aðeins tveimur mánuðum síðan.

Sum íslamistasamtök, sérstaklega Bræðralag múslima, hafa markvisst villt á sér heimildir til að höfða til vinstrisinnaðra ungmenna. Ímyndarherferð þeirra hefur byggt á að leggja áherslu á málefni sem báðir hópar styðja. Lykillinn að samvinnunni hefur því verið sameiginlegt hatur þeirra á Bandaríkjunum, NATO og svokallaðri „vestrænni heimsvaldastefnu“. En það baráttumál mun einungis tímabundið geta dregið dulu yfir ágreininginn sem mun óhjákvæmilega koma upp á milli þeirra. Fyrir utan þetta eina sameiginlega baráttumál, er vart hægt að ímynda sér ósamstæðari hugmyndafræði.

Trúfrelsi og tjáningarfrelsi

Í hugum flestra Vesturlandabúa er trúfrelsið einn af mikilvægustu hornsteinum samfélagsins. Trúfrelsið er sérstaklega í hávegum haft meðal vinstrisinna sem margir hverjir eru trúlausir. Á hinn bóginn eru íslamistar algjörlega andvígir trúfrelsi. Líkt og áður kom fram byggir hugmyndafræði þeirra á skilyrðislausum samruna íslams og ríkisvaldsins. Í samfélögum grundvölluðum á íslamisma eru þeir sem ekki eru múslimar ýmist settir skör lægra eða hreinlega drepnir. Þeir sem yfirgefa íslam eða gerast sekir um Guðlast eru taldir réttdræpir.

Skáldsaga Salman Rushdie, Söngvar Satans (e. The Satanic Verses), var gefin út árið 1988. Sagan vakti svo mikla reiði að klerkastjórnin í Íran fyrirskipaði dauða höfundarins og lagði þrjár milljónir Bandaríkjadollara honum til höfuðs. Næstu áratugi fór Rushdie huldu höfði. Smám saman slakaði hann þó á öryggisráðstöfunum sínum og hóf að koma fram á opinberum vettvangi á ný. Í ágúst 2022 stóð til að hann myndi flytja ræðu á ráðstefnu í New York. Hann var í þann mund að hefja ræðu sína þegar róttækur íslamisti, Hadi Matar, hljóp upp á sviðið og stakk hann tíu sinnum. Til allrar hamingju lifði Rushdie árásina af. Hann var þó blindaður á hægra auga og lá lengi á sjúkrahúsi.

Jafnrétti kynjanna og réttindi samkynhneigðra

Kvennafrídagurinn var haldinn með mikilli viðhöfn í Reykjavík síðastliðinn október. Yfir hundrað þúsund manns söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur til að minnast áfangasigra kvenréttindabaráttunnar. Er barátta vestrænna femínista fyrir réttindum kvenna í öðrum heimshlutum jafn hávær? Svo virðist ekki vera.

Íslamistar aðhyllast ekki vestrænar hugmyndir um jafnrétti kynjanna. Hægt er að taka fjölmörg dæmi sem undirstrika það. Samkvæmt sjaríalögum þykir vitnisburður konu í réttarsal ekki jafnmarktækur og vitnisburður karlmanns. Konur eiga ekki sama erfðarétt og karlmenn og þær eru látnar klæðast fötum sem hylja þær nánast frá toppi til táar.

Konur sem taldar eru hafa brotið þessi lög sæta hörðum refsingum. Það vakti heimsathygli þegar Masha Amini var handtekin og myrt af írönsku „siðgæðislögreglunni“ fyrir rúmu ári síðan. Það hefur hins vegar lítið borið á mótmælum femínista gegn illri meðferð íranskra yfirvalda á konum. Hér er um að ræða hræsnisfullan tvöfaldan staðal. Eiga íranskar konur síður skilið þau mannréttindi sem vestrænir femínistar telja sjálfsögð?

Að sama skapi viðurkenna íslamistar ekki mannréttindi samkynhneigðra. Í Íran eru samkynhneigðir teknir af lífi. Undir Hamassamtökunum á Gaza er samkynhneigð einnig dauðasök (þótt orðalagið „siðferðisleg hnignun“ sé notað þegar dómar yfir samkynhneigðum eru kveðnir upp). Það væru ekki skemmtileg örlög sem biðu samkynhneigðra stuðningsmanna íslamista ef þeir myndu opinbera kynhneigð sína á yfirráðasvæðum þeirra.

Loftslagsbreytingar

Krafan um loftslagsaðgerðir er ofarlega á baugi um þessar mundir. Í vikunni náðist einmitt samkomulag á COP28 ráðstefnunni um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Væntanlega gera Jeremy Corbyn og skoðanabræður hans sér vonir um að vinir þeirra, íslamistarnir, deili eldmóði þeirra fyrir loftslagsaðgerðum. En þeir munu verða fyrir djúpstæðum vonbrigðum. Hvers vegna? Það vill svo til að ein helsta tekjulind íslamista víða um heim er olía. Ef olía er lifibrauð þitt er ólíklegt að þú munir nokkurn tímann taka undir kröfuna um að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Auk þess er trúarkenningin um Dómsdag stór hluti af heimssýn íslamista. Samkvæmt þeirri kenningu mun sjálf Jörðin verða kramin og endurunnin þegar Dómsdagur rennur upp. Flestir íslamistar telja að sá dagur sé rétt handan við hornið. Af þeim sökum hafa þeir ekki miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum. Hvers vegna ættu þeir að hafa slíkar áhyggjur þegar þeir trúa því að Jörðin sé hvort eð er dæmd til eyðileggingar?

Lokaorð

Vinstrisinnar og íslamistar eru ekki ósammála um neina smámuni. Þeir eru ósammála um grundvallaratriði. Vinátta þeirra mun einungis ganga upp á meðan þeir geta farið líkt og kettir í kring um heitan graut um þá hugmyndafræðilegu gjá sem aðskilur þá. Á einhverjum tímapunkti mun mælirinn fyllast. Þá mun baráttan gegn „vestrænni heimsvaldastefnu“ ekki nægja sem friðþæging fyrir þann eðlismun sem er á heimsmynd þeirra. Það er því einungis tímaspursmál hvenær óhjákvæmileg vináttuslit vinstrisinna og íslamista verða að veruleika.

Höfundur er samfélagsrýnir.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×