Skoðun

Fjár­festing til fram­tíðar - Fjár­festum í börnum

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Greinaskrif kennara og skólastjórnenda undanfarnar vikur og mánuði kalla á viðbrögð og athygli okkar allra. Á Íslandi, þar sem stefnan er skóli án aðgreiningar, eiga öll börn rétt á því að vera í sínum hverfisskóla, burtséð frá aðstæðum, greiningum eða fötlun.

Það er einfaldlega þannig að fjölbreyttur nemendahópur krefst fjölbreyttrar sérfræðiþekkingar. Innan skólanna eiga að vera fagteymi sem samanstanda meðal annars af þroskaþjálfum, iðjuþjálfum, sálfræðingum, námsráðgjöfum, talmeinafræðingum og kennurum.

Sérúrræði og faglegur stuðningur eflir skólastarfið

Til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda og styrkja faglegt starf innan skólanna höfum við í Viðreisn lagt fram tillögu um að fjölga stöðugildum sérfræðinga í skólum Hafnarfjarðar. Með því væri hægt að bjóða upp á markvissari og fjölbreyttari sérúrræði. Mikilvægt er að fagteymin vinni þétt með kennurum og skólastjórnendum, þannig að stuðningur við börn og starfsfólk verði samþættur hluti af daglegu skólastarfi - ekki aðeins viðbragð þegar vandi er orðinn til staðar.

Stofnun sérúrræðis eða sérskóla í samstarfi sveitarfélaga

Til þess að bregðast við ákalli skólastjórnenda og kennara lögðum við einnig til að Hafnarfjarðarbær hefji vinnu við eða hafi frumkvæði að stofnun sérúrræðis eða sérskóla í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Slík úrræði eru þegar til staðar og hafa reynst mörgum nemendum vel. Í flestum tilfellum eru þau tímabundin - nemendur sækja stuðning í sérskóla og snúa svo aftur í sinn hverfisskóla með aukið sjálfstraust og aukna færni.

Því miður eru biðlistar í slík úrræði víða langir og það leiðir til þess að börn og fjölskyldur þurfa að bíða of lengi eftir viðeigandi stuðningi. Með því að Hafnarfjörður sýni frumkvæði í þessu máli væri sveitarfélagið að sýna í verki að það leggi sitt af mörkum til að mæta vaxandi þörf í samfélaginu og tryggja börnum með fjölþættar þarfir þann stuðning sem þau eiga rétt á. Það myndi jafnframt sýna að sveitarfélagið er tilbúið að fjárfesta í kennurum og öðru fagfólki til að bæta og styrkja starfsumhverfi þeirra.

Við í Viðreisn viljum fjárfesta í vellíðan barna og ungmenna - með öllum þeim verkfærum sem til eru. Það er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði og fulltrúi Viðreisnar í fræðsluráði Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×