Skoðun

Fjár­hags­vandi bænda og lofts­lags­ham­farir

Halldór Reynisson skrifar

Vandi bænda hefur verið í brennidepli upp á síðkastið. Talað er um að 12 milljarða vanti við búvörusamninga til að leysa í bráð. Rætt er um að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að leggja fram 1600 milljónir strax til bænda í fjárhagserfiðleikum, þar af 600 milljónir fyrir unga bændur.

Á sama tíma er verið að ræða um á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP28 að skoða þurfi kolefnisfótspor landbúnaðarins sem er víst töluverður hluti þess loftslagsvanda sem við blasir, sérstaklega framleiðsla á kjöti.

Ég held að flestir geti verið sammála um að grípa til aðgerða fyrir íslenska bændur enda er landbúnaður helsta forsenda fyrir byggð í mörgum héröðum landsins, auk heldur sem gæta þarf að fæðuöryggi. Á sama tíma er samt nauðsyn að horfast í augu við að við getum ekki haldið áfram með hefðbundinn landbúnað í sama farinu og áður. Flestar atvinnugreinar þurfa að fara í gegnum róttæka endurskoðun á kolefnisfótspori sínu frammi fyrir þeirri fortakslausu hamfarahlýnun sem nú á sér stað; iðnaður, sjávarútvegur, ferðaþjónusta, samgöngur auk landbúnaðar. Hamfarir knýja á um breytta hugsun og aðgerðir.

Væri hægt að hugsa sér að bændur í hefðbundnum búgreinum væru vörslumenn jarða sinna og afrétta í loftslagsmálum, meira en nú er um leið og dregið væri úr kjötframleiðslu sem er hluti loftslagsvandans? Væri ekki ráð að hluti fjárframlaga sem rætt er um vegna bráðavanda bænda, færu til að endurheimta votlendi og bændur önnuðust þá vinnu?

Landnýting er einn stærsti þátturinn í kolefnisfótspori okkar Íslendinga og sérstaklega á það við um framræst votlendi. Það er viðurkennt að fljótvirkasta leiðin til að minnka kolefnisfótspor landsins sé að endurheimta votlendi.

Ég sé ekki betur en að hægt sé að sameina hagsmuni bænda og þau stóru skref sem við Íslendingar þurfum að taka í loftslagsmálum.

Höfundur er eldri aðgerðarsinni í loftslagsmálum og fyrrverandi smábóndi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×