Skoðun

Óheilbrigða kerfið

Elín Tryggvadóttir skrifar

Fyrir Alþingiskosningar lofa margir frambjóðendur fögrum fyrirheitum um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Gullslegin loforð þeirra fuðra flest upp um leið og atkvæðin falla ofan í kjörkassann. Á botninum eru þau geymd á öruggum stað þar til frambjóðandinn þarf aftur á atkvæði almúgans að halda. Frambjóðendur vita nefnilega að það er Íslendingum hjartans mál að heilbrigðiskerfið gangi eins og smurð vél. Þeir vita að það er sama hvaða stjórnmálastefnu kjósandinn aðhyllist, hann vill eiga tryggan aðgang að heilbrigðisþjónustu fyrir sig og sína. Þetta loforð er eins og mantra sem sumir frambjóðendur þylja upp af gömlum vana án nokkurs vilja til efnda. En af hverju þarf heilbrigðiskerfið á vænni innspýtingu að halda? Er ekki búið að ausa formúgu í þessa híýt sem gefur engan arð? Er heilbrigðiskerfið á Íslandi ekki á heimsmælikvarða?

Nei, haldið ykkur fast. Íslenskt heilbrigðiskerfi er ekki á heimsmælikvarða. Ég veit ekki einu sinni hvaða mælikvarða við ættum að nota til að meta stöðu okkar Íslendinga í heilbrigðismálum. Richter?

Þjóðarsjúkrahús Íslendinga er staðsett í um 100 byggingum á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Húsin eru komin til ára sinna og einbýlin eru af skornum skammti þannig að erfitt er að sinna sóttvörnum eins og vera ber. Við munum öll hvernig fór á Landakoti síðastliðið haust. Við höfum beðið í áratugi eftir nýrri byggingu sem stenst nútímakröfur og enn þurfum við að bíða. Holan stóra við Hringbraut er táknræn fyrir aðgerðarleysi ríkisins undanfarin ár. Táknræn fyrir botninn á kassanum þar sem atkvæði þitt verður að engu. Rúmanýting spítalans er á sumum starfseiningum yfir 100% sem gefur augaleið að er vel yfir þeim viðmiðum sem aðrar þjóðir sætta sig við. Eðlilegt nýting væri 85%, en hvað um það, þetta reddast alltaf. Sjúklingar liggja á göngum, á salernum og inni í geymslum. Það þarf ekki mikið að gerast til að allt fari á hliðina. Staða Landspítala er svo brothætt að þegar fjórða bylgja heimsfaraldursins lét á sér kræla í lok júlí var staða sjúkrahússins færð yfir á hættustig eftir að einungis þrír sjúklingar með covid höfðu verið lagðir inn. Þrír. „En kommonn, það er heimsfaraldur. Allir spítalar alls staðar eru á vonarvöl“ hugsa sumir. Jú, jú. Það er alheimsfaraldur en ástandið var hættulegt löngu áður en hún Covid litla kóróna ákvað að valda usla. Það þarf ekki alheimsfaraldur til að steypa langsveltu þjóðarsjúkrahúsinu fram af brúninni. Það þarf ekki meira til en öldrun þjóðarinnar.

Á legudeildum Landspítala dvelja á annað hundrað aldraðra sem komast hvorki lönd né strönd. Þeir sem stýra frábæra heilbrigðis- og velferðarkerfinu virðast nefnilega hafa gleymt því að fólk eldist. Í stað þess að verja ævikvöldinu á öldrunarstofnun eyða aldraðir síðustu mánuðunum á lyflækningadeildum sjúkrahússins þrátt fyrir að hafa fyrir löngu lokið meðferð við veikindum. Elli er nefnilega ekki sjúkdómur og okkur ber að sjá til þess að aldraðir eigi öruggt skjól. Gleymum því ekki.

Það eru ekki bara aldraðir sem standa höllum fæti í óheilbrigðiskerfinu. Langir biðlistar eru í aðgerðir sem margar hverja auka lífsgæði til muna. Enn aðrar spara samfélaginu stórfé með minni lyfjakostnaði, færri innlögnum og virkni þeirra sem aðgerðirnar þurfa. Hugsaðu þér að þurfa að ganga á ónýtri mjöðm mánuðum saman þegar bein nuddast við bein í hverju sársaukafullu skrefi.

Löng hefð er fyrir fjársvelti fjórðungssjúkrahúsanna og þar hefur niðurskurðurinn náð inn að beini. Átröskunarteymin eru yfirfull, börn fá ekki tíma hjá talmeinafræðingum, erfitt er að fá sálfræðiaðstoð nema viðkomandi geti pungað út tugþúsundum fyrir klukkutímann. Biddu fyrir þér ef barnið þitt sýnir frávik í þroska eða hegðun. Biðin eftir greiningu lengist með hverjum deginum sem líður.

Heilbrigðiskerfinu, sem greinilega er langt frá því að vera á heimsmælikvarða, tókst að tapa trausti helmings landsmanna á einu augabragði þegar krabbameinsskoðanir voru færðar til. Konur sætta sig ekki við að leikið sé með líf þeirra. Og lítum til einkaframtaksins. Þótt tryggja þurfi eðlilegt eftirlit upplifa sérfræðilæknar að ekki sé á þá hlustað og deila þeirra við sjúkratryggingar fer ekki fram við samningaborðið heldur í fjölmiðlum. Hvernig væri að taka upp árangursríkt samtal og leggja einhverjar línur áður en skíturinn flýgur í viftuna?

Ísland er eyja, það er óumdeilanleg staðreynd. Erlendis geta stjórnendur sjúkrahúsa vísað á annan spítala ef geta stofnunarinnar er komin að þolmörkum. Þar er hægt að virkja áætlun B, áætlun C og jafnvel áætlun D. Við Íslendingar höfum enga áætlun, ekkert bakland. Það er enginn sem grípur okkur þegar við erum í vandræðum og við erum jú í heilmiklum vandræðum. Mannauður heilbrigðiskerfisins upplifir sig sem eyland þar sem hver báran á fætur annarri steitir á skerinu. Undirstaða íslenska heilbrigðiskerfisins, mannauðurinn, er á heimsmælikvarða en við getum þetta ekki ein. Þú getur ráðið inn færasta heilbrigðisstarfsfólk í heimi en það getur ekki gert sitt besta ef aðstaðan er drasl. Aldan sverfur sig inn í bergið og veikir stoðirnar. Við þurfum öruggt og öflugt heilbrigðiskerfi sem vex með þjóðinni og aðlagast breyttum aðstæðum þegar við á. Við verðum að gera heilbrigðisþjónustu landsmanna að sjálfbærri heild sem getur brugðist við neyðarástandi sama í hvaða formi það birtist okkur.

Það er mjög auðvelt að benda á það sem betur má fara og henda fram innistæðulausum tékkum. Það er hins vegar erfiðara að framkvæma og efna loforðin. Það krefst hugrekkis og heiðarleika að gera breytingar. Við Íslendingar þurfum að vanda valið í komandi Alþingiskosningum og gæta þess að atkvæðið okkar falli ekki í gleymsku á botni kjörkassans.

Höfundur er frambjóðandi Samfylkingar - Reykjavík Suður




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×