Skoðun

RÚV brýtur á börnum

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar

Í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, er skýrt kveðið á um að stofnunin skuli „vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð“ í starfsháttum sínum.

Þessi fyrirmæli virðast hafa farið fram hjá starfsfólki Ríkisútvarpsins því á síðustu dögum, t.d. eftir veðurfréttir föstudaginn 31. október síðastliðinn, hefur RÚV þverbrotið gegn 28. gr. Laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um vernd barna gegn skaðlegu efni. Þar segir: „Fjölmiðlaveitu sem miðlar hljóð- og myndefni er óheimilt að miðla efni, þar á meðal hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni, sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi.“ Undantekningu má gera eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum en klukkutíma fyrr önnur kvöld vikunnar.

Í aðdraganda hrekkjavöku kynnti RÚV dagskrá sína með því að skella saman í einn pakka eftirfarandi efni: Pahanhautoja, Óráði, Shaun of the dead, Don’t look now, Kamera o tomero na, Wreck og Coupez! með Kappsmálum, Jakten på Olavsskrinet, Tilraunastund og Heimilisfræði, Skrímslasjúkum snillingum, Bursta, Hvolpasveitinni og Blæju. Af þessum 15 kvikmyndum og þáttaseríum eru sjö bannaðar börnum yngri en 16 ára.

Það skýtur skökku við að til að nálgast bannaða efnið inni á vef RÚV þarf að staðfesta aldur en á sama tíma þótti lítið tiltökumál að sýna sérvalin myndbrot sem mörg hver voru ansi blóðug og óhugnanleg, sérstaklega í augum ungra barna, á þeim tíma dags sem börn eru enn vakandi og sum hver hugsanlega valsandi fyrir framan sjónvarpstæki.

Nú er vel hægt að halda því fram að hvað RÚV sýni og hvenær skipti orðið engu máli því allir séu löngu hættir að horfa á línulega dagskrá; þrjú af hverjum fjórum heimilum hér á landi séu með áskrift að Netflix og níu af hverjum tíu heimilum kaupi aðgang að einhvers konar streymisveitu. En kjarni málsins er einfaldlega sá að óháð því hversu mörg börn kunni að hafa séð dagskárkynningu RÚV þá ber Ríkisútvarpinu að virða þau lög sem sett hafa verið um starfsemi þess.

Höfundur er dósent í fjölmiðlafræði við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

Tími til kominn

Berglind Friðriksdóttir,Gunnsteinn R. Ómarsson,Hrönn Guðmundsdóttir,Sigfús Benóný Harðarson,Vilhjálmur Baldur Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×