Erlent

Sakar Rússa um tugi þúsunda stríðs­glæpa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og Olena Selenska, eiginkona hans, minnast fórnarlamba Rússa í Bucha.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og Olena Selenska, eiginkona hans, minnast fórnarlamba Rússa í Bucha. AP

Forseti Úkraínu sakar Rússa um að hafa framið tugi þúsunda stríðsglæpa síðan þeir hófu innrás sína í landið fyrir þremur árum. Hann minntist fórnarlamba Rússa í borginni Bucha.

„Fleiri en 183 þúsund glæpir sem tengjast yfirgangi Rússa gegn Úkraínu hafa verið skráðir opinberlega,“ sagði Vólódímír Selenskí, á leiðtogafundi evrópskra embættismanna í borginni Bucha. Þá sagði hann að tölurnar næðu ekki yfir glæpina framda á svæðunum sem Rússar hernema nú.

Rússar hertóku borgina snemma eftir innrás þeirra og mættu hermennirnir með nafnalista frá leyniþjónustu Rússlands af fólki sem talið var geta ógnað Rússum. Þeir sem voru taldir vera ógn voru pyntaðir og teknir af lífi. Minnst 450 lík fundust, sum sem höfðu verið skilin eftir undir berum himni dögum saman.

Níu þúsund stríðsglæpir eiga að hafa verið framdir í Bucha, þar meðtalið átján hundruð morð, samkvæmt Oleksiy Khomenko, ríkissaksóknara Úkraínu.

Mikill meirihluti stríðsglæpanna er til rannsóknar í Úkraínu. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hefur einnig rannsakað stærri mál. Rússar og Bandaríkjamenn viðurkenna hins vegar ekki lögsögu sakamáladómstólsins.

„Við þurfum skilvirk alþjóðalög til að tryggja öryggi fólksins okkar og evrópsks samfélags í heild gegn slíkum ógnum,“ sagði Selenskí samkvæmt umfjöllun Reuters.

Úkraínskir dómstólar hafa einnig tekið fyrir mál og hafa 178 einstaklingar verið ákærðir og 21 verið sakfelldir að sögn Khomenko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×