Innlent

Sjálf­stæðis­flokkurinn lang­stærstur

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Nýr meirihluti í borgarstjórn er kolfallinn miðað við nýja viðhorfskönnun Gallup.
Nýr meirihluti í borgarstjórn er kolfallinn miðað við nýja viðhorfskönnun Gallup. Vísir/Vilhelm

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur í borgarstjórn samkvæmt nýrri könnun Gallup, og mælist með þriðjungsfylgi. Flokkur fólksins dettur út miðað við könnunina og Framsókn helst rétt svo inni.

Samkvæmt könnuninni sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið er nýr meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins kolfallinn. Flokkarnir fengju aðeins 10 borgarfulltrúa kjörna, en borgarfulltrúar eru 23.

Flokkur fólksins tapar helmingi

Sjálfstæðiflokkurinn hefur bætt töluvert við sig frá síðustu könnun Gallup í janúar, en Flokkur fólksins hefur tapað um helmingi fylgis síns milli kannanna og fengi engan borgarfulltrúa. Fram kemur hjá Viðskiptablaðinu að konur yfirgefi Flokk fólksins frekar en karlar.

Könnunin var framkvæmd dagana 1. til 30. mars 2025. Í úrtaki voru 3.598 Reykvíkingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 47,7%. Svona voru niðurstöðurnar:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: 33,9 prósent - 9 borgarfulltrúar
  • Samfylkingin: 20 prósent - 5 borgarfulltrúar
  • Sósíalistaflokkurinn: 13,1 prósent - 3 borgarfulltrúar
  • Viðreisn: 9,5 prósent - 2 borgarfulltrúar
  • Píratar: 5,5 prósent - 1 borgarfulltrúi
  • Miðflokkurinn: 5,1 prósent - 1 borgarfulltrúi
  • Framsóknarflokkurinn: 4,7 prósent - 1 borgarfulltrúi
  • Vinstri græn: 4,6 prósent - 1 borgarfulltrúi
  • Flokkur fólksins: 3,6 prósent - enginn borgarfulltrúi

Sósíalistar sækja fram

Eini flokkur núverandi meirihluta sem eykur fylgi sitt milli kannana er Sósíalistaflokkurinn, sem fór úr 10 prósentum í könnuninni í janúar upp í 13,1 prósent.

Flokkurinn fékk tvo borgarfulltrúa kjörna árið 2022 með 7,7 prósentum.

Píratar fengu 11,6 prósent í kosningunum 2022 en fylgi þeirra hefur hríðfallið í ár og mælist flokkurinn með 5,5 prósent fylgi í dag og fengi einn borgarfulltrúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×