Innlent

Sér rautt vegna ærslabelgs fyrir framan húsið sitt

Jakob Bjarnar skrifar
Ærslabelgur. Þessi er við Gerðasafn Kópavogi og þarna virðist líf og fjör. En upp hafa komið dæmi sem eru ekki beinlínis æskileg, unglingar hafa safnast við ærslabelgina og þar hafa komið upp eineltismál. Ottó sendibílsstjóri í Hafnarfirði hefur horn í síðu þessa leiktækis.
Ærslabelgur. Þessi er við Gerðasafn Kópavogi og þarna virðist líf og fjör. En upp hafa komið dæmi sem eru ekki beinlínis æskileg, unglingar hafa safnast við ærslabelgina og þar hafa komið upp eineltismál. Ottó sendibílsstjóri í Hafnarfirði hefur horn í síðu þessa leiktækis. vísir/vilhelm

Sendibílstjórinn Ottó Bjarnarsson sér fyrir sér skipulagsslys af „Græna skrímslisins-gráðu“ í uppsiglingu í Hafnarfirði. Til standi að setja upp ærslabelg í 12 metra fjarlægð frá húsi sínu. Þessu vill hann ekki una. Bæjarstjórinn Valdimar Víðisson segir að málið verði skoðað af fullri alvöru.

„Mín fyrrverandi segir mig heimsmeistara í röfli og nú er ég reiður. Að fólk með svona mikla ábyrgð og svona mikið vald, geti holað þessu svona niður!“ segir Ottó í samtali við Vísi. Honum er heitt í hamsi.

Segir til standa setja upp ærslabelg í trássi við vilja íbúa

Nýverið fengu íbúar á Holtinu í Hafnarfirði tilkynningu um að til stæði að setja upp svokallaðan ærslabelg á leikvelli í hverfinu.

„Við og nágrannar okkar vorum í sjokki. Hvernig í ósköpunum getur svona gerst? Við erum með allskonar lið sem kemur að þessari ákvörðun. En það sést þegar komið er á staðinn, þú getur ekki boðið íbúunum sem eru í þessum tveimur húsum og verða fyrir mesta ónæðinu uppá þetta,“ segir Ottó.

Ljóst er að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði þurfa að leggjast yfir áform um ærslabelgina eftir að Oddur sendibílsstjóri hefur skorið upp herör gegn fyrirætlunum um að koma upp einum slíkum í 12 metra fjarlægð frá heimili hans, á Holtinu í Hafnarfirði.Facebook

Hann segir þetta milljóna framkvæmd en hún þýði að fasteignaverð í hverfinu hrapi. Ottó býr ásamt konu sinni við við Álfholt 46b. Hann hefur nú sent inn harðort mótmælabréf til bæjarfulltrúa og boðið þeim í kaffi heim til sín á morgun svo þeir geti séð hvernig þetta verður með eigin augum. En viðbrögðin hafa látið á sér standa. 

„Það eru engar kosningar núnar,“ segir Ottó háðskur.

„Ég er reiður og vonsvikinn. Ég get ekki þolað að hafa svona fólk í vinnu. Þetta er nákvæmlega það sama og er að gerast í Reykjavík. Teknar eru ákvarðanir án þess að þetta fólk sem um vélar kynni sér aðstæður.“

Bréfið sem dreift var um hverfið þar sem tilkynnt er um að til standi að setja upp ærslabelg á leiksvæði á Holtinu í Hafnarfirði. Nokkuð sem bæjarfulltrúar töldu hið besta mál en nú er að koma á daginn að ekki eru allir kátir.

Ottó hefur sem sagt ýmislegt við þessar ráðagerðir að athuga. Hann telur bæjarfulltrúa í vandræðum en þau séu búin að bíta í sig að þetta séu frábær tæki. Og þau vilji hola þessu niður hvar sem því verði við komið.

Segir einelti og slagsmál fylgja ærslabelgjunum

„Til að mynda er eitt tæki við Óla Rún-tún við Sundlaugina. Staðsetningin þar er frábær en umgengni er ekki góð og allskyns leiðindi sem fylgja, svo sem einelti og slagsmál. Af hverju eru þeir svona æstir í að setja upp þessi andstyggilegu leiktæki. Það er ekkert eftirlit. Af hverju eru þeir að reyna að troða þessum viðbjóði ofan í kokið á fólki? Og hvaða fyrirtæki er að selja þeim þessi tæki? Einhver er að græða á þessu,“ segir Ottó.

Erindið sem Ottó hefur sent til allra bæjarfulltrúa er svohljóðandi:


Efni: Athugasemd vegna fyrirhugaðrar staðsetningar ærslabelgs í nágrenni við Álfholt 46b

Ég sem íbúi og húseigandi að Álfholti 46b vil koma á framfæri formlegri athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd sem felur í sér uppsetningu ærslabelgs í mínu nánasta nágrenni. Ég tel að staðsetningin sé óheppileg af mörgum ástæðum og geri kröfu um að bæjaryfirvöld endurskoði ákvörðun sína og íhugi að finna belgnum annan stað sem er betur til þess fallinn.

Ástæður athugasemdar minnar eru eftirfarandi:

1. Hávaði og ónæði: Í ljósi reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða ber að tryggja að hávaði frá slíku mannvirki valdi ekki ónæði fyrir íbúa í nágrenninu. Ærslabelgir eru almennt mjög vinsælir meðal barna og ungmenna, sem eykur líkur á hávaða og samkomum fram á kvöld. Slíkt hefur óneitanlega áhrif á lífsgæði íbúa í nærliggjandi húsum, sérstaklega fjölskyldna með ung börn eða eldri borgara.

2. Slæm reynsla af öðrum ærslabelgjum í bænum: Hafnarfjarðarbæ hefur að mínu mati mistekist að skapa öruggt og heilnæmt umhverfi í kringum þá ærslabelgi sem þegar hafa verið settir upp í bænum. Þetta má sjá í tilvitnunum og umfjöllunum á grendarsíðum á samfélagsmiðlum eins og Facebook, þar sem ítrekað er greint frá einelti, slagsmálum, slysum og óæskilegri hegðun í tengslum við slíka belgi. Einnig hefur umhirða í kringum slík svæði ekki verið bænum til sóma. Að mínu mati er mikilvægt að bæjaryfirvöld taki þessa reynslu alvarlega og komi í veg fyrir að slíkt endurtaki sig í þessu tilviki.

3. Skortur á samráði við íbúa: Það vekur sérstaka athygli mína og vonbrigði að ákvörðun um staðsetningu þessa ærslabelgs skuli hafa verið tekin án samráðs við íbúa svæðisins. Slíkt verklag er í mótsögn við góða stjórnsýsluhætti og brýtur gegn mikilvægu meginmarkmiði skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem skýrlega er kveðið á um að tryggja eigi samráð og þátttöku íbúa í skipulagsákvörðunum sem hafa áhrif á þeirra nærumhverfi.

4. Hugsanleg brot á skipulagslögum og reglugerðum: Með hliðsjón af skipulagslögum og samþykktum Hafnarfjarðarbæjar tel ég mikilvægt að athuga hvort breyting á skilgreindu opnu svæði til uppsetningar ærslabelgsins stangist á við gildandi skipulag eða reglugerðir. Slíkar framkvæmdir verða að vera í samræmi við gildandi deiliskipulag og hljóta viðeigandi samþykki í samráði við íbúa svæðisins.

Tillaga að lausn: Ég legg til að Hafnarfjarðarbær taki mið af framangreindum sjónarmiðum og meti aðra möguleika á staðsetningu ærslabelgsins. Þar sem nálægð við íbúðarhúsnæði er ekki með sama hætti raun er í þessu tilviki. Æskilegt væri að slík staðsetning sé á svæði sem hefur minni áhrif á nærliggjandi íbúðarhúsnæði og þar sem hægt er að tryggja betri umgengni og eftirlit með notkun svæðisins.

Ég ítreka mikilvægi þess að slík ákvörðun verði tekin í samráði við íbúa svæðisins.

P.S Vert er að geta þess og benda á að fjarlægð frá lóðamörkum mínum í þessa rólu sem er þarna nú þegar er ca 12-13 metrar. Ég vænti þess að þessi athugasemd verði tekin til greina og hef áhuga á að fá upplýsingar um næstu skref í málinu. Ef þörf er á frekari upplýsingum eða viðtali er ég reiðubúinn að vera í sambandi.

Virðingarfyllst, Ottó Bjarnarsson.


Bæjarstjóri í Hafnarfirði er Valdimar Víðisson og hann þekkir málið. Hann segir forsöguna þá að ákveðið hafi verið að bæta við hoppubelgjum eða ærslabelgjum á tveimur stöðum í Hafnarfirði. Umhverfis og framkvæmdaráð skoði mögulega staði og kemst að því hvaða staðsetning teljist heppileg.

Óæskileg atvik komið upp í tengslum við ærslabelgina

Valdimar segir að erindi Ottós verð að sjálfsögðu tekið til skoðunar. „Ég hef fengið þessar athugasemdir frá honum. Allaveganna tveir hafa sent inn athugasemdir, og það er nóg fyrir okkur. Það verður að skoða þetta.“

Valdimar segir þann einmitt tilgang þess að bréf sé sent á íbúanna. Ef engar athugasemdir berist þá sé litið svo á að hægt sé að hefja framkvæmdir en því er ekki að heilsa að þessu sinni.

„Þetta er eitthvað sem til stóð að gerðist eftir einhverjar vikur. En að sjálfsögðu verður þetta tekið til skoðunar og endurskoðunar. Við erum ekki að fara að bjóða uppá eitthvað svona í óþökk íbúanna,“ segir Valdimar.

Valdimar Víðisson var oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórnarkosningum 2022 og hefur nú tekið við sem bæjarstjóri í meirihlutasamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Hann segir að fullt tillit verði tekið til athugasemda Ottós en það er ekki víst að það dugi, Ottó hefur ýmisilegt við þessa ærslabelgi að athuga.framsóknarflokkurinn

Valdimar segir að Ottó hafi áhyggjur af fallandi fasteignaverði húsa í nágrenninu vegna ærslabelgsins en það standi ekki til að fara í neitt svona í berhögg við vilja og/eða óþökk íbúa.“

Málið verður tekið fyrir á næsta fundi ráðsins. Valdimar segir Hafnarfjarðarbæ ekki virka þannig að ærslabelgjum sé troðið upp á þá sem ekki vilja slíkt í nágrenni sínu. Spurður hversu marga ærslabelgir eru nú þegar í Hafnarfirði minnir hann að þeir séu um fjórir.

„Almennt hefur reynslan verið góð en vissulega hafa komið upp atvik, söfnun unglinga sem ekki er æskileg í kringum svona. Þetta á nú bara að stuðla að útivist fyrir börn og fjölskyldur, en það hafa komið upp atvik í kringum ærslabelgina sem eru ekki æskileg. En slík atvik hafa líka verið í kringum skóla. Heilt yfir hefur þetta verið notað eins og ætlast er til. Það hefur þá bara verið farið í þau mál,“ segir bæjarsjórinn.

Valdimar leggur áherslu á samráð við íbúa

Valdimar ítrekar að athugasemdirnar verði skoðaðar alvarlega og hann á fund með Ottó strax í næstu viku. Hann nefnir að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði leggi áherslu á að vinna öll slík mál í samráði við íbúa og tekið sé tillit til athugasemda. Hann nefnir sem dæmi að til hafi staðið að setja upp grenndarstöð á einum stað en ákveðið að breyta eftir að óánægja íbúa gerði vart við sig. 

Valdimar Víðisson bæjarstjóri í Hafnarfirði segir að ábendingar Ottós verði skoðaðar af fullri alvöru.vísir/vilhelm

„Þetta er nærþjónusta og ekkert annað gert nema til skemmtunar og viðbót við leiktæki sem fyrir eru. Við viljum ekki að svona sé gert í óþökk, þetta er fyrir íbúana. Þetta er hugsað sem viðbót við útivistarsvæði og ef koma fram mótmæli þá að sjálfsögðu verður það skoðað,“ segir Valdimar.

En hvað sem líður frómum fyrirætlunum bæjarstjórans er ljóst að hann hefur verk að vinna að lægja gramt geð Ottós sem hefur kafað í málið og efast um þessar frómu fyrirætlanir. Nær lagi sé að tala um gerræðisleg vinnubrögð.

„Það var stórmerkilegt sem mér var sagt í dag þegar ég talaði við fólkið hjá skipulagsfulltrúa. Nefndinni hérna í Hafnarfirði hefur verið gert að hætta við svona áform þar sem fjarlægð frá húsi var 140 metrar og það þótti vera of nálægt og hvað gera þeir svo samþykkja bara á næsta stað þar sem er 12 metrar. Þetta mundi ég kalla einbeittan brotavilja,“ segir Ottó.

Engin sérstök fjarlægðarmið tilgreind í lögum

Ottó lítur ekki svo á að barátta hans gegn þessum tiltekna ærslabelgi einskorðist við hann einan og þetta tilfelli. Hann hefur komist að því að þetta er víðtækara og að fiskur sé undir steini.

„Fjarlægð ærslabelgs frá húsi er ekki sérstaklega tilgreind í íslenskum lögum eða reglugerðum, en öryggis- og staðsetningarkröfur leiksvæða almennt eru skýrðar í reglugerð nr. 1025/2022 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. Samkvæmt reglugerðinni skal leiksvæði ekki vera staðsett þar sem hætta eða ónæði getur stafað af umhverfinu, og öryggi notenda skal tryggt með hliðsjón af viðurkenndum stöðlum,“ segir Ottó.

Svæðið þar sem til stendur að setja upp ærslaberg. Þetta er steinsnar frá heimili Ottós.

Hann segir heilbrigðisnefndir sveitarfélaga bera ábyrgð á eftirliti með öryggi leiksvæða og skulu tryggja að þau uppfylli kröfur um staðsetningu og öryggi. Þetta feli í sér að staðsetning ærslabelgs í grennd við hús þarf að taka mið af mögulegum áhrifum á umhverfið, þar með talið ónæði fyrir íbúa og hættu á slysum.

„Ef um er að ræða deilur um staðsetningu ærslabelgs, gæti verið nauðsynlegt að framkvæma áhættumat eða leita álits heilbrigðisnefndar viðkomandi sveitarfélags. Að auki gætu ákvæði í skipulags- og byggingarreglugerðum sveitarfélaga haft áhrif á staðsetningu ærslabelgs, sérstaklega ef hann er hluti af stærra leiksvæði. Í ljósi þess að engin sérstök fjarlægðarviðmið eru tilgreind í lögum eða reglugerðum, er mikilvægt að fylgja almennum öryggisviðmiðum og staðbundnum reglum sveitarfélaga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×