Skoðun

Val milli lestrar eða hlustunar náms­efnis

Guðmundur S. Johnsen skrifar

Undanfarna mánuði hefur umræða um íslenskt skólastarf verið óvægin. Sótt hefur verið að kerfinu og jafnvel starfsfólki vegna alþjóðlegs samanburðar PISA. Víst má margt bæta en einnig er mikilvægt að benda á það sem vel hefur verið gert. Sláum skjaldborg um skólakerfið, kennara og stjórnendur og hvetjum þá til góðra verka.

Ég vill hér nefna þætti sem skipta lesblinda miklu en bendi jafnframt á nauðsynleg skref til að gera enn betur.

Fyrir hvatningu Félags lesblindra á Íslandi, var árið 2006 tekin var upp skimun og lesblindugreiningar í skólakerfinu. Félagið lagði þá áherslu á að skimun hæfist við 10 ára aldur. Þetta var mikilvægt skref í að tryggja jafnari tækifæri til náms. Tveimur árum síðar var kveðið á í lögum um grunnskóla að allir nemendur ættu rétt á kennslu við hæfi og koma ætti til móts við sértæka námsörðugleika, þar með talda lesblindu. Barátta Félags lesblindra fyrir skimum og greiningu í skólakerfinu hefur skilað miklum árangri þótt enn sé nokkuð í land.

Fimmti hver lesblindur

Félag lesblindra fékk Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að kanna umfang lesblindu meðal íslenskra barna og ungmenna. Niðurstaðan var afgerandi. Einn af hverjum 10 nemendum í efri bekkjum grunnskóla sagði lesblindu hafa mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu sína í námi. Staðfest voru sterk tengsl lestrarörðugleika og kvíða, lágs sjálfsmats og óöryggis. Þessi vanlíðan dregur úr námsáhuga og takmarkar tækifæri og eykur hættu á áhættuhegðun. Kvíði hefur áhrif á lífsgæði barna og ungmenna og getur haft áhrif á hvernig þeim vegnar í lífinu.

Fram kom að að fimmti hver nemandi á aldrinum 18-24 ára hefur fengið lesblindugreiningu. Sú staðreynd að rúm tuttugu prósent nemenda eigi við alvarlega lesörðugleika að stríða er mikil áskorun fyrir skólakerfið. Líklegt er að þessi hópur sé nokkuð stærri því nemendur sem glíma við veruleg vandræði eru líklegri til að hafa fengið lesblindugreiningu.

Niðurstöðurnar sýndu mikilvægi þess að lesblindugreining sé framkvæmd ekki síðar en á 10. aldursári. Með því er hægt að huga betur að þeim sem eru líklegri til að glíma við kvíða vegna lesblindu. Að greinast seint getur haft mikil og neikvæð áhrif á skólagöngu lesblindra til lengri tíma. Þeir upplifa vanmátt gagnvart bekkjarfélögum og efasemdir um eigin hæfni.

Félag lesblindra hefur sent öllum skólum í landinu upplýsingarit þar sem þessar rannsóknarniðurstöður eru reifaðar. Skólarnir eru hvattir til að mæta lesblindum, bæði hvað varðar kennsluhætti, verkefnaskil og próf. Taka þarf tillit til að hópurinn, einkum stúlkur, glími við mikinn kvíða.

Mikilvægi félags lesblindra

Félag lesblindra vinnur að hagsmunamálum lesblindra og markmiðið er að jafna tækifæri til menntunar, starfs og lífsgæða. Allt frá stofnun þess árið 2003, hefur það unnið markvisst að því að auka vitund og þekkingu á lesblindu. Félagið hefur unnið að hagsmunum ríflega 2.000 félagsmanna, aðstoðað lesblinda, unnið með aðstandendum, kennurum, skólastarfsfólki, yfirmönnum og samstarfsfélögum. Félag lesblindra eru frjáls félagasamtök, sem er rekið eingöngu á sjálfsaflafé án opinberra framlaga.

Á næstu misserum mun félagið leggja höfuðáherslu á að hvetja til innleiðingar og aukins vægis stafræns texta í skólakerfinu. Eins og flestir þekkja er burðarstólpi skólakerfisins texti, allir skulu vera fluglæsir og skrifandi. En núverandi textatækni skólakerfisins veldur lesblindum erfiðleikum. Bjóðum nemendum velkomna í textasamfélagið þar sem þeir geta valið milli lestrar eða hlustunar námsefnis. Nýtum stórkostlegar framfarir hljóðtækni og gervigreind sem vex nú ásmegin og styður lesblinda. Aukið stafrænt textaumhverfi auðveldar fleirum nám. Þá sitja lesblindir við sama borð og aðrir.

Höfundur er formaður Félags lesblindra á Íslandi. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×