Skoðun

Fjöl­skyldur í for­gang?

Eyþór Arnalds skrifar

Í gær ákvað meirihlutinn í borgarstjórn að skerða opnunartíma leikskólanna í Reykjavík. Frá og með næstu áramótum verður opnunartíminn aðeins til 16:30, en ekki 17:00. Þessi hagræðingaaðgerð mun bitna á fjölda fjölskyldna. Breytingin minnkar möguleika fólks í vinnu, skerðir sveigjanleika fólks til viðverutíma og bitnar ekki síst á konum eins og staðfest var í jafnréttismati sem gert var í tengslum við skerðinguna. Hátt í þúsund börn fá ekki lengur inni eftir 16:30. Í dag eru 45 leikskólar þar sem börn eru lengur en til 16:30.

Biðlistar í borginni

Þrátt fyrir fögur fyrirheit um leikskólapláss fyrir öll börn 12 mánaða og eldri eru enn miklir biðlistar í borginni eftir plássi. Biðlistarnir eru lengri en hjá nágrannasveitarfélögum. Mörg dæmi eru um að börn fái pláss, en ekki í sínu hverfi. Þá þarf að skutla. Kosningaloforð Samfylkingarinnar um þetta atriði hefur því ekki verið efnt. „Betra líf fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir“ hefur holan hljóm í kosningabaráttunni þegar horft er á efndirnar í Reykjavík. Þegar meirihlutinn lagði síðan til skerðingu á opnunartímanum í borgarráði greiddum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að sjálfsögðu atkvæði gegn þeirri ákvörðun. Málið fer því til borgarstjórnar á þriðjudaginn. Útgjöld vaxa á öllum sviðum hjá Reykjavíkurborg. Ekkert er sparað í yfirstjórn eða í gæluverkefnum. Forgangsröðunin er skýr. Leikskólarnir eru skertir. Opnunartíminn minnkaður. Fjölskyldur eru ekki settar í forgang. Svo mikið er víst. Það er þá komið í dagsljósið.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×