Skoðun

Hvernig getum við stutt betur börn með náms­erfið­leika í grunn­skólum?

Ingibjörg Karlsdóttir og Sigrún Harðardóttir skrifa

Farsæl skólaganga getur skipt sköpum fyrir framtíð barna. Ábyrgð skóla er því mikil og ekki síst hvað varðar stuðning við börn sem eiga í hvað mestum erfiðleikum. Samhliða nýrri og breyttri skólastefnu um skóla án aðgreiningar hefur félagsmótunarhlutverk skóla aukist. Kennarar standa í auknum mæli frammi fyrir því að láta sig varða börn í í erfiðum félagslegum aðstæðum og persónulegum vanda. Vandinn varðar margvíslega viðkvæma stöðu fjölda skólabarna, meðal annars vegna námserfiðleika og ýmis konar raskana. Þróunin hefur verið sú að nemendum í sérkennslu fjölgar og er áætlað að nú njóti allt að 25% barna einhvers konar sérstuðnings í grunnskóla. Vaxandi hlutfall greininga vegna námserfiðleika, félags- og tilfinningalegra erfiðleika eða hegðunarvanda hefur áhrif á starf kennarans, líðan barnsins og möguleika þeirra til að njóta sín í skólastarfinu. Hér gerum við grein fyrir niðurstöðum þriggja rannsókna, sem undirritaðar hafa unnið að undanfarin ár, sem allar höfðu það að markmiði að kanna stuðning við börn með námserfiðleika í grunnskólum. Niðurstöður byggja annars vegar á viðtölum við foreldra og kennara og hins vegar á spurningalistakönnun sem send var til kennara og annars fagfólks grunnskóla.

Hvað segja foreldrar barna með námserfiðleika?

Í viðtölum við foreldra komu fram þrjár megin áherslur. Í fyrsta lagi segja þeir að ekki sé nægilegt upplýsingastreymi milli skóla og heimilis. Foreldrum er í mun að fá reglulega upplýsingar um stöðu og líðan barns í skólanum og kalla eftir virðingu og umhyggju gagnvart barninu. Í öðru lagi finnst foreldrum vera of mikið álag á heimilin vegna heimanáms barnanna og að auka þurfi námslegan stuðning og framboð af sérhæfðu námsefni fyrir börn með námserfiðleika. Foreldrar eru ánægðir með ýmislegt svo sem námsver og sérkennslu, einstaklingsnámskrá og einstaklingsáætlun í einstaka greinum. Í þriðja lagi finnst þeim mikilvægt að fleira fagfólk væri til staðar innan skóla til að taka á þeim málum sem upp kunna að koma. Þá sýna niðurstöður að of löng bið eftir greiningu veldur því að barnið bíður og fær ekki viðeigandi stuðning og þjónustu.

Hvað segja kennarar og annað fagfólk grunnskóla?

Í viðtölum við kennara og annað fagfólk kom fram að þau upplifa mikið álag í starfi sökum fjölbreyttra þarfa nemenda sem hefur áhrif á líðan þeirra og starfsánægju. Að mati kennara og fagfólks má rekja það mikla álag til áskorana sem þau standa frammi fyrir vegna vaxandi fjölbreytileika í nemendahópnum, fjölgunar nemenda með ýmis frávik í þroska og nauðsynjar á sérþekkingu um málefni innflytjenda- og flóttabarna. Kennarar sögðu að þeir hefðu þurft að að fá betri undirbúning í kennaranáminu hvað varðar kennslu og þjálfun í hegðunarmótandi aðferðum fyrir nemendur með námserfiðleika. Þeir vilja auk þess sjá fleiri fagstéttir innan skóla og meiri eftirfylgd í kjölfar greininga barna. Kennarar kalla því eftir aukinni faglegri þjónustu við þennan hóp nemenda og skýrari verkferlum.

Hvað geta skólafélagsráðgjafar gert?

Niðurstöður sýna að foreldrar og kennarar telja að skorti aðkomu og þekkingu fleiri fagstétta í málum nemenda með námserfiðleika, svo sem félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, talmeinafræðinga, þroskaþjálfa og fleiri. Þá sýna niðurstöður að annarra úrbóta sé jafnframt þörf til að draga úr álagi og auka svigrúm kennara til að sinna kennslu og undirbúningi hennar. Í því sambandi má sérstaklega nefna aukna eftirfylgd í málum nemenda í kjölfar greininga á þroskafrávikum.

Af öllu þessu má ráða að mikilvægt sé að efla faglega þjónustu við börn með námserfiðleika í grunnskólum með því að fjölga faglærðu fólki innan skólanna. Mikilvægt er að hlusta á raddir foreldra og kennara og kalli þeirra eftir að fá fleiri fagstéttir inn í skólana til að létta af þeim álagi og styðja um leið við börn með fjölbreytilegan vanda og ýmis þroskafrávik. Í því sambandi liggur beinast við að nefna skólafélagsráðgjöf. Félagsráðgjafar hafa sérstaka þjálfun í málastjórn sem byggist á því að afla upplýsinga um félagslegar aðstæður og tengsl einstaklings ásamt því að hafa yfirsýn hverjir koma að málum hans og tryggja þar með samfellu í þeirri þjónustu sem veitt er. Auk þess vinna félagsráðgjafar í skólum á heildrænan hátt í málum barna í samvinnu við fjölskyldur, aðrar fagstéttir og aðrar þjónustustofnanir með áherslu á að greina og meta þá þætti sem geta haft áhrif á námslega stöðu og almenna líðan barna. Skólafélagsráðgjafar hafa auk þess sérþekkingu á þróun forvarna- og stuðningsúrræða fyrir börn með það að markmiði að öll börn geti notið sín í skólaumhverfinu.

Farsældarfrumvarp barna- og félagsmálaráðherra lofar góðu þar sem kveðið er á um málastjóra í nærumhverfi barns sem skipuleggur stuðningsúrræði og eftirfylgd. Í allri stefnumótun í málefnum barna er mikilvægt að hafa í huga að það getur verið dýrt að spara kostnað í stuðningi við börn í vanda á mikilvægasta þroskaskeiði þeirra. Rannsóknir benda eindregið til að slíkur sparnaður leiðir til aukins kostnaðar síðar meir. Brösótt skólaganga getur haft í för með sér brotthvarf úr námi, aukna hættu á fíknivanda af ýmsu tagi, heilsuleysi og alvarleg geðræn vandamál.

Ingibjörg Karlsdóttir er félagsráðgjafi MPH á BUGL og Sigrún Harðardóttir er lektor við félagsráðgjafardeild HÍ.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×