„Okkar skip ljúka við sitt í kvöld og sigla þá heim,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Núna taka við útreikningar á stærð loðnustofnsins út frá þeim viðbótarupplýsingum sem fengist hafa í leiðangrinum og segir Sigurður stefnt að því að ljúka þeim reikningum á þriðjudag.
Innan sjávarútvegsins eru vonir bundnar við það að leiðangurinn skili þeim árangri að unnt verði að auka loðnukvóta úr 61 þúsund tonnum og upp í jafnvel 200-300 þúsund tonn.
„Við vorum að sjá loðnu mjög víða við landgrunnsbrúnina,“ segir leiðangursstjórinn Birkir Bárðarson en telur þó ekki unnt að leggja mat á það á þessu stigi hvort tilefni verði til að hækka veiðiráðgjöfina.
Hlykkir sem sjást á leitarferlunum á vef Hafrannsóknastofnunar gefa hugmynd um hvar skipin voru að sjá loðnu. Hlykkirnir koma fram þar sem skipin setja út lítið troll og toga til að ná sýnum af loðnunni.

Á Grænlandssundi, sem hafís huldi í byrjun janúar, sá Árni Friðriksson aðallega ungloðnu sem ekki er hluti af hrygningarstofninum núna. Fullorðna loðnan var austar og á nokkuð hefðbundinni farleið, að sögn Birkis. Jóna Eðvalds SF, sem leitaði djúpt austur af landinu, sá hins vegar enga loðnu þar.
„Það sem er óvenjulegt miðað við undanfarin ár er hvað hún er snemma á ferðinni,“ segir Birkir. Þá sé loðnan farin að ganga inn á grunnslóð fyrir austan.

Hrognahlutfall í loðnunni hafi mælst milli fimm og níu prósent af þyngd hennar. Við hrygningu sé það milli tuttugu og þrjátíu prósent og segir Birkir stefna í að loðnan fari að hrygna um miðjan mars.
Hitt rannsóknaskipið, Bjarni Sæmundsson, var í kvöld statt norður af Hornströndum á heimleið til Hafnarfjarðar. Hákon ÞH var kominn inn til Akureyrar, Börkur NK var út af Héraðsflóa, Aðalsteinn Jónsson SU út af Glettingi, Ásgrímur Halldórsson SF stefndi inn á Norðfjörð, Bjarni Ólafsson AK var kominn inn til Norðfjarðar en Jóna Eðvalds SF var á siglingu um líklega gönguslóð loðnunnar undan sunnanverðum Austfjörðum.
Núverandi kvóti dugar vart nema í 1-2 veiðiferðir á hvert þeirra átján íslensku skipa sem búið er að úthluta kvóta. Af 61 þúsund tonnunum fá norsk skip bróðurpartinn vegna milliríkjasamninga en grænlensk og færeysk fá einnig hlut. Íslendingar fá hins vegar megnið af því sem bætist við umfram þetta.
Hér má sjá loðnuleitina skýrða í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgi: