Skoðun

Skóla­mál úr skápnum

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Skert tækifæri og óöryggi eiga ekki að vera fylgifiskar þess fyrir ungmenni að koma út úr skápnum. En þriðjungur hinsegin ungmenna upplifir óöryggi í skólanum sínum, í hinu íslenska skólakerfi. Þetta kemur fram í nýlega birtri könnun Samtakanna '78. Þessi staða er einfaldlega óásættanleg. Hún er óásættanleg gagnvart þessum ungmennum og hún er óásættanleg gagnvart samfélaginu okkar í heild.

Það má leiða líkur að því að það séu hinsegin ungmenni í öllum skólum og eru þau alls konar, rétt eins og önnur ungmenni. Hinsegin ungmenni eiga það þó sameiginlegt að falla út fyrir það sem telst normið eða viðmiðið hvað varðar kynhneigð, kyntjáningu, kyneinkenni og/eða kynvitund.

Sömu tækifæri fyrir hinsegin ungmenni

Hvert hinsegin ungmenni stefna í lífinu, hvað þau vilja fá út úr náminu sínu, hvað þau vilja starfa við að námi loknu er einnig jafn mikið alls konar og hjá öllum öðrum ungmennum. Og þau eiga rétt á sömu tækifærum, sömu aðstæðum til náms og sömu möguleikum á því að upplifa öryggi í skólanum sínum. Það hlýtur að vera samfélagsverkefni okkar allra að tryggja að svo verði.

Það er ljóst að starfsfólk skólanna gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að tryggja öruggt námsumhverfi fyrir alla nemendur. Meðal þess sem kom fram í könnunni, hátt og skýrt, er að hinsegin ungmenni eru að biðja um námsefni og fræðslu sem ýtir undir sýnileika hinsegin fólks og hinseginleikans. Sem ýtir undir sýnileika þeirra sjálfra. Að tilvera þeirra sé viðurkennd til jafns við tilveru hinna.

Hinseginfræðslu í skólakerfið

Til þess að svo megi verða þarf hinseginfræðslu fyrir kennara og það þarf að tryggja að námsefnið endurspegli nútímann. Það er ekki nóg að kennaranemar sem hafa áhuga á kynjafræði og margbreytileika okkar mannfólksins, læri og skilji hvernig eigi að fást við þann sama margbreytileika í nemendahópum sínum. Stærðfræðikennarar, íþróttakennarar og jarðfræðikennarar þurfa að kunna þetta. Allir kennarar þurfa að kunna þetta – fyrir alla nemendur – og fyrir samfélagið okkar. Það er tímabært fyrir skólamálin okkar að koma úr skápnum.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×