Átök brutust út á milli hersveita Aserbaídsjan og Armena sem búsettir eru í Nagorno-Karabakh um helgina. Aserar og Armenar hafa báðir kennt hinni hliðinni um að hafa komið í veg fyrir friðsamlegar málalyktir í átökunum um héraðið.
Armenar ásökuðu Asera í dag um að hafa sprengt upp bæi í héraðinu en Aserar hafa harðneitað og sast tilbúnir til að koma á vopnahléi. Það sé þó bundið því skilyrði að armenskar hersveitir yfirgefi vígvelli.
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði utanríkisráðherra Armeníu og Aserbaídsjan á fund á föstudag í von um að koma á vopnahléi. Átökin í héraðinu, sem er hluti af Aserbaídsjan en meginþorri íbúa af armensku bergi brotnu, héldu þó áfram um helgina þrátt fyrir tilraunir til vopnahlés.
Þegar hafa tvö vopnahlé, sem komið var á fyrir tilstilli Rússa, verið brotin frá því að átökin um héraðið hófust þann 27. september síðastliðinn. Átök um héraðið hafa ekki verið jafn slæm í um 26 ár, eða frá því að sex ára stríði um héraðið lauk árið 1994. Um 30 þúsund manns létust í stríðinu um héraðið.
Alþjóðasamfélagið hefur lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins í Nagorno-Karabakh og vill koma í veg fyrir að fleiri lönd dragist inn í deilurnar að því er segir í frétt Reuters. Tyrkir hafa lýst yfir stuðningi við Aserbaídsjan en Rússland á í varnarbandalagi við Armeníu.
Pompeo sakað yfirvöld í Tyrklandi um að ýta undir átökin með því að senda Aserum vopn en því hafa Tyrkir staðfastlega neitað. Þá hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti biðlað til Bandaríkjanna að hjálpa yfirvöldum í Moskvu að stilla til friðar.
Óljóst er hve margir hafa látist í átökunum en Pútín greindi frá því í liðinni viku að nærri fimm þúsund hafi látist í átökunum, rúmlega 2.000 frá hvorri stríðandi fylkinga. Varnarmálaráðuneytið í Nagorno-Karabakh greindi hins vegar frá því í gær að 963 Armenar hafi látist í átökunum. Asersk yfirvöld hafa ekki gefið út hve margir hermanna þeirra hafi látist en að 65 aserskir borgarar hafi verið drepnir og 298 særst.