Erlent

Tugir látnir eftir á­rás á í­búðar­hús­næði

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Rússar hæfðu íbúðarhúsnæði.
Rússar hæfðu íbúðarhúsnæði. Epa

Að minnsta kosti 25 eru látnir, þar á meðal þrjú börn, eftir að rússnesk flugskeyti hæfðu íbúðarhúsnæði í vesturhluta Úkraínu. Rúmlega sjötíu særðust í árásinni.

Árásin átti sér stað í borginni Ternopil sem er um tvö hundruð kílómetra frá landamærum Póllands við Úkraínu. Rússar hafa ekki gert fjölda árása á borgina hingað til og á myndskeiðum sem BBC hefur undir höndum má sjá flugskeytin nálgast borgina án viðbragða frá loftvarnarkerfi Úkraínumanna. Þá hæfðu Rússar einnig borgina Lviv og Ivano-Frankivsk-umdæmið.

Að sögn forsvarsmanns lofthers Úkraínu gerðu Rússar 476 drónaárásir og skutu 48 flugskeytum. Úkraínski herinn náði að stöðva 442 dróna og 41 loftskeyti.

Lítið rafmagn er í boði í borginni Lviv og víðar í Úkraínu.EPA

Vólódimír Selenskí, forseti Úkraínu, birti myndir af eyðileggingunni á samfélagsmiðlinum X og lýsir ástandinu.

„Því miður urðu íbúar Ternopil verst úti í þessari stórfelldu árás Rússa í nótt. Eins og staðan er núna vitum við að þessi árás Rússa hefur kostað 25 mannslíf, þar af þrjú börn. Enn og aftur hafa Rússar drepið saklaust, friðsamt fólk sem var einfaldlega sofandi á heimilum sínum,“ skrifar forsetinn.

Orkuinnviðir og almenningssamgöngur í grennd við borgina urðu fyrir skemmdum vegna árásarinnar. Rússar leggja nú áherslu á að eyðileggja orkuinnviði landsins þegar veturinn nálgast. Með því hafi þeir áhrif á bæði líðan íbúa og varnir Úkraínu. Vegna þessa skammta úkraínsk yfirvöld rafmagn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×