Skoðun

Sóknar­færi í ferða­þjónustu

Sigurður Valur Sigurðsson skrifar

Í kjölfarið á falli WOW air hefur meira borið á umræðunni um verðmæti ferðamanna en oft áður. Í umhverfi þar sem erlendum gestum og flugferðum til og frá landinu fækkar skiptir máli að hámarka virði allra þeirra sem sækja landið heim. Að horfa til þess að fjölga þeim ferðamönnum sem kallast „betur borgandi gestir“ er mikið tækifæri fyrir ferðaþjónustuna og grundvöllur þess að ná jafnvægi í henni eftir öfgakennt vaxtarskeið.

Alþjóðabankinn birti nýverið spá um viðskiptaferðaþjónustu á Íslandi og spáir vexti á þessu sviði sem er tvisvar til þrisvar sinnum hraðari en á heimsvísu næstu 10 árin. Þeir gestir sem flokkast undir viðskiptaferðamenn eru þeir sem koma til landsins til að taka þátt í fundum, hvataferðum, ráðstefnum, viðburðum og sýningum. Samkvæmt rannsóknum sem hafa verið gerðar á þessum hópi hér á landi og fjölda erlendra rannsókna er þetta hópur sem eyðir hærri fjárhæðum á hverja gistinótt, ferðast af ábyrgð í viðkvæmri náttúru og kemur helst utan háannatíma.

Stefnurammi ríkisstjórnarinnar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi er „Arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta í sátt við land og þjóð“. Það að byggja betur undir viðskiptaferðaþjónustu, nú þegar áætlaður vöxtur er innan þeirrar greinar, er gott tækifæri til að styðja við þá stefnu því þeir ferðamenn eru ágætt dæmi um vel skilgreindan hóp ferðamanna sem er til þess fallinn að ýta undir frekari verðamætasköpun í greininni. Hér á landi höfum við byggt upp reynslu og þekkingu í að þjónusta þennan sértæka hóp erlendra gesta. Við höfum framúrskarandi innviði og vöru sem er eftirsótt vegna sérkenna íslenskrar menningar, náttúru og hugarfars. Við höfum líka tækifæri til þess að vaxa og getum nýtt þá innviði sem þegar hefur verið fjárfest í betur en nú er gert.

Ráðstefnuborgin Reykjavík hefur frá árinu 2012 haft það hlutverk að auka verðmætasköpun í íslenskri ferðaþjónustu og markaðssetja Reykjavík og Ísland fyrir viðskiptaferðamenn með áherslur á ráðstefnur, fundi, hvataferðir og viðburði og hefur vöxturinn frá því að verkefnið fór af stað verið að jafnaði 18,8% milli ára skv. greiningu Alþjóðabankans. Á þessum árum höfum við byggt upp einstakt tengslanet og notið sívaxandi ávinnings af þeirri vinnu sem unnin hefur verið. Fram undan eru tækifæri, t.d. með uppbyggingu fyrsta 5 stjörnu hótelsins á Íslandi, Marriott, við Hörpuna, Iceland Parliament Hotel við Austurvöll auk fjölda áhugaverða uppbyggingaverkefna víða um land. Það er því er mikilvægt að við aukum enn sókn okkar á þessum vettvangi. Við getum nýtt þá þekkingu og tengslanetið sem búið er að byggja upp til þess að stækka þennan hóp ferðamanna enn frekar. Með þessu fylgjum við fast eftir stefnu ríkisstjórnarinnar með því að byggja undir betur borgandi gesti á Íslandi, viðskiptaferðamenn nýta innviði okkar með mun ábyrgari hætti en aðrar tegundir ferðamanna og því líklegri til að að vera í sátt við land og þjóð.

Höfundur er markaðsstjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur (Meet in Reykjavík).




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×