Íslenski boltinn

Patrick, Haukur Páll og Ingvar myndu ekki spila væri leikurinn í kvöld

Kolbeinn Tumi Daðason og Óskar Ófeigur Jónsson skrifa
Patrick Pedersen.
Patrick Pedersen. Vísir/Vilhelm
Patrick Pedersen, aðalframherji Valsmanna í Pepsi-deild karla, er í kapphlaupi við tímann fyrir bikarúrslitaleikinn gegn KR á laugardaginn. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, segir í samtali við Vísi að Pedersen sé ekki fótbrotinn. Um helmingslíkur eru á því að sá danski spili á laugardaginn.

„Hann er í stöðugri meðferð. Hann verður betri með hverjum deginum,“ segir Ólafur. Auk danska framherjans eru fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson og markvörðurinn Ingvar Þór Kale glímir einnig við meiðsli. Haukur fór af velli í tapleiknum gegn Breiðabliki á mánudaginn og Ingvar spilaði ekki vegna meiðslanna.

Væri löngu hættur ef fótbolti hefði áhrif á svefn

Patrick Pedersen er markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar með átta mörk en hann hefur þó ekki skorað síðan í júní og er búinn að missa af tveimur af þremur síðustu leikjum Valsliðsins í Pepsi-deildinni.

„Ef leikurinn væri í kvöld myndi enginn þeirra spila,“ segir Ólafur. Aðspurður hvort honum gangi illa að festa svefn af áhyggjum yfir meiðslum lykilmannanna hlær þjálfarinn.

„Ef ég myndi ekki sofa útaf íþróttum þá væri ég löngu hættur,“ segir Ólafur sem hefur marga fjöruna sopið á löngum ferli. „Þetta er hluti af leiknum.“

Tapað þremur leikjum í röð

Valsmenn hafa tapað þremur leikjum í röð í Pepsi-deildinni og á sama tíma hafa FH-ingar komist níu stigum fram úr þeim á toppi deildarinnar.

Valsliðið hefur ekki skorað í síðustu tveimur leikjum sínum án Patrick Pedersen og liði má ekki nota Emil Atlason í bikarúrslitaleiknum á móti KR því hann er í láni hjá Val frá KR.

Leikurinn á móti KR er fyrsti bikarúrslitaleikur félagsins í tíu ár eða síðan að Valur vann bikarinn síðast árið 2005.  Valur hefur ennfremur ekki mætt erkifjendum sínum í KR í bikarúrslitaleiknum síðan 1990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×