Fótbolti

Ronaldo sá rautt og óð reiður til Heimis

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo benti beint á Heimi Hallgrímsson eftir rauða spjaldið í kvöld.
Cristiano Ronaldo benti beint á Heimi Hallgrímsson eftir rauða spjaldið í kvöld. Getty/Niall Carson

Cristiano Ronaldo fór reiður í átt að Heimi Hallgrímssyni og lét nokkur vel valin orð falla í átt til íslenska þjálfarans, eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Írum í undankeppni HM í fótbolta í kvöld. Írarnir hans Heimis unnu frábæran sigur, 2-0.

„Kannski var hann að reyna að finna tannlæknatíma,“ grínuðust skríbentar BBC og höfðu greinilega gaman af því þegar Ronaldo óð til Heimis eftir rauða spjaldið. Atvikið má sjá hér að neðan.

Klippa: Ronaldo reyndi að rífast við Heimi

Ronaldo fékk rauða spjaldið fyrir augljóst olnbogaskot en hann virtist einfaldlega missa stjórn á skapi sínu í augnablik, á 60. mínútu leiksins.

Hann lét það ekki stöðva sig í því að fara til Heimis og virtist láta eins og það væri Íslendingnum að kenna að rauða spjaldið fór á loft. 

Ricardo Carvalho, aðstoðarþjálfari Portúgals, og fleiri reyndu að róa Ronaldo en hann náði að komast til Heimis sem virtist alveg til í að hlusta og á endanum tókust þeir í hendur.

Heimir hafði í aðdraganda leiksins talað um að Ronaldo hefði haft mikil áhrif á dómara leiksins í 1-0 tapi Íra í Lissabon í október, og Ronaldo svaraði því í gær með því að segja að Heimir væri sniðugur maður sem væri greinilega að reyna að hafa áhrif á dómarann fyrir leikinn í kvöld.

Það þurfti hins vegar ekki að hafa nein áhrif á dómarann til að lyfta rauða spjaldinu og reka Ronaldo af velli, því brot hans var augljóst eins og sjá má hér að ofan.

Troy Parrott skoraði bæði mörk Íra í kvöld, í fyrri hálfleiknum, og þar með lifir HM-draumur Íra. Þeir eru í 3. sæti F-riðils, stigi á eftir Ungverjum og þremur á eftir Portúgal, fyrir lokaumferðina á sunnudaginn. Lokaleikur Íra er á útivelli gegn Ungverjum og ljóst að ekkert nema sigur dugar Írlandi þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×