Íslenski boltinn

Hlakkar til að standa sig betur í föður­hlut­verkinu

Aron Guðmundsson skrifar
Davíð Smári Lamude er nýr þjálfari Njarðvíkur en gerði áður frábæra hluti með lið Vestra.
Davíð Smári Lamude er nýr þjálfari Njarðvíkur en gerði áður frábæra hluti með lið Vestra. Vísir/Anton Brink

Davíð Smári Lamude, nýráðinn þjálfari Njarðvíkur, segir það hafa verið erfitt að starfa fjarri fjölskyldu sinni sem þjálfari Vestra á Ísafirði. Nú er hann mættur aftur suður og hlakkar til að standa sig betur í föðurhlutverkinu.

Davíð starfaði sem þjálfari Vestra í fótboltanum frá árinu 2023 til 2025 og náði góðum árangri fyrir vestan með liðið. Kom þeim upp í Bestu deildina á sínu fyrsta tímabili og stýrði Vestra til sigurs í Mjólkurbikarnum á því nýafstaðna í fyrsta sinn í sögu félagsins. Á meðan Davíð var þjálfari Vestra bjó hann fjarri fjölskyldu sinni, konu og börnum, og missti því af mörgum gæðastundum með henni.

„Fólkið mitt bjó hérna í bænum á meðan að ég var fyrir vestan og það var auðvitað erfitt. En þetta var ákvörðun sem ég tók ekki einn, við fjölskyldan tókum þessa ákvörðun saman og að baki núna er auðvitað gríðarlegur akstur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Ég nýtti alla frídaga til að keyra eins hratt og ég gat í bæinn, á löglegum hraða samt, til að hitta fólkið mitt.“

„Þetta var bara ákveðinn fórnarkostnaður sem að ég var tilbúinn til þess að leggja á það að ég gæti búið mér til ákveðinn starfsvettvang sem að mér líður vel í og sem að ég tel mig vera góðan í. Það er að vera þjálfari og mér fannst þetta allt þess virði.“

Leiðir Davíðs og Vestra skildu í september síðastliðnum og hefur hann nú verið ráðinn þjálfari Njarðvíkur. Það að flytjast aftur búferlum á höfuðborgarsvæðið verður til þess að Davíð mun verja mun meiri tíma með fjölskyldu sinni.

„Ég þarf svona aðeins að venjast þessu. En bara, þú veist, gaman að geta séð börnin sín mæta á fótboltaæfingar, gaman að geta mætt á fótboltamótin. Maður er svona einhvern veginn, þú veist, hvernig á ég að orða það, maður hefur kannski bara ekki staðið sig nægilega vel í þessu föðurhlutverki og eingöngu út af vinnu og og það er bara eitthvað sem ég hlakka til að fá að standa mig betur í. Það er klárt mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×