Íslenski boltinn

Áfrýjun FH skilaði engu - sektin og bann Doumbia standa óbreytt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kassim Doumbia var ekki sáttur með Kristinn Jakobsson.
Kassim Doumbia var ekki sáttur með Kristinn Jakobsson. Vísir/Andri Marinó
Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur nú staðfest úrskurði Aga- og Úrskurðarnefndar í tveimur málum sem knattspyrnudeild FH skaut til til dómstólsins en þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Úrskurðir nefndarinnar, varðandi sekt vegna framkvæmd leiks annars vegar og fjögurra leikja bann leikmannsins Kassim Doumbia hinsvegar, standa því óhaggaðir.

FH-ingar þurfa því að borga hámarkssekt vegna háttsemi áhorfenda í leik FH og Stjörnunnar þann 4. október 2014 en það eru hundrað þúsund krónur.

„Fyrir liggja skýrslur dómara leiksins, Kristins Jakobssonar, og eftirlitsmanna, Braga V. Bergmann, sem báðar eru á einn veg. Framkvæmd leiksins var óviðundandi. Framkoma beggja liða var óviðunandi. Framkoma áhorfenda og stuðningsmanna beggja liða var óviðunandi. Öryggisgæsla á leiknum var óviðunandi. Dómurum leiksins fannst þeim stafa ógn af leikmönnum beggja liða og áhorfendum og/eða stuðningsmönnum liðanna," segir meðal annars í dómnum sem má finna allan hér.

Kassim Doumbia missti gjörsamlega stjórn á sér í leikslok og ætlaði að ráðast á Kristinn Jakobsson dómara. Það þurfti marga til að halda honum.

„Samkvæmt skýrslu dómara leiksins og eftirlitsmanns með framkvæmd leiksins var Kassim Doumbia vikið af leikvelli vegna stjórnlausrar og ógnandi hegðunar í garð dómara eftir að leik lauk," segir meðal annars í dómnum en þetta var annað rauða spjald Kassim Doumbia á tímabilinu.

„.. dómari leiksins taldi hegðun leikmannsins stjórnlausa og ógnandi gagnvart dómurum leiksins, þannig að hætta stafaði af, auk þess sem leikmaðurinn hafi haft upp svívirðingar og grófar aðdróttanir í garð dómarateymisins," segir ennfremur í dómnum sem má finna allan hér.

Kassim Doumbia missti algjörlega stjórn á sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×