Fótbolti

Stal sjúkratöskunni til að koma Mbappé út af

Sindri Sverrisson skrifar
Raphinha og félagar fögnuðu með bikarinn í gær eftir sigurinn á Real Madrid.
Raphinha og félagar fögnuðu með bikarinn í gær eftir sigurinn á Real Madrid. Getty/Jose Breton

Brasilíumaðurinn Raphinha, fyrirliði Barcelona, beitti nýrri aðferð til að reyna að koma í veg fyrir að Kylian Mbappé gæti tafið leik Barcelona og Real Madrid í úrslitaleik spænska ofurbikarsins í fótbolta í gær.

Mbappé kom Real yfir á fimmtu mínútu en hann átti þó ekki sinn besta dag og í fyrri hálfleiknum fékk hann aðhlynningu vegna meiðsla, úti á miðjum velli.

Raphinha var óánægður með þessa töf á leiknum og hljóp og tók tösku sjúkrateymis Madridinga, og hljóp með hana út fyrir hliðarlínuna til að sjá til þess að Mbappé yrði sinnt utan vallar og leikurinn gæti haldið áfram.

Raphinha slapp við refsingu frá dómara leiksins fyrir þetta og þeir Mbappé gátu báðir haldið áfram leik.

Raphinha skoraði tvö marka Barcelona sem vann á endanum 5-2 sigur í bráðfjörugum leik en Börsungar unnu þrátt fyrir að hafa misst markvörðinn Wojciech Szczesny af velli með rautt spjald á 56. mínútu.

Mbappé spilaði leikinn til enda en tókst ekki að bæta titli í safnið sitt að þessu sinni. Frakkinn var sá eini sem fékk hrós frá Carlo Ancelotti, stjóra Real, eftir leik:

„Það þarf að verjast vel til að vinna svona leiki. Barcelona átti skilið að vinna, þeir vörðust betur en við. Liðið lítur ekki vel út en ég ætla ekki að beina fingri að neinum. Mbappé átti góðan leik, líklega sá eini, og skoraði mark,“ sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×