Íslenski boltinn

Alex Þór aftur í Stjörnuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Þór Hauksson í baráttu við landsliðsmanninn Stefán Teit Þórðarson.
Alex Þór Hauksson í baráttu við landsliðsmanninn Stefán Teit Þórðarson. vísir/bára

Miðjumaðurinn Alex Þór Hauksson er genginn í raðir Stjörnunnar á ný eftir fjögurra ára fjarveru.

Alex er uppalinn hjá Stjörnunni og lék 72 leiki með liðinu í efstu deild áður en hann fór til Öster í Svíþjóð í árslok 2020. Hann var aðeins tvítugur þegar hann var gerður að fyrirliða Stjörnunnar.

Eftir þrjú ár hjá Öster gekk Alex í raðir KR í fyrra. Hann lék 24 leiki með liðinu í Bestu deildinni á síðasta tímabili.

„Það er gríðarlega gaman að vera kominn heim. Hér hefur mér liðið best, og ég er ákaflega stoltur af því að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að gera Stjörnuna að því sem menn lögðu af stað með,“ er haft eftir Alex í tilkynningu frá Stjörnunni. 

„Það er ótrúlega margt búið að breytast, og það verður frábært fyrir mig að fá að taka þátt í því. Ég hef eins og aðrir tekið eftir þeim breytingum sem hafa átt sér stað og fylgst með af aðdáun yfir þeirri gleði og hugrekki sem einkennir liðið. Það er einu orði sagt frábært að vera kominn heim.“

Stjarnan endaði í 4. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili. Auk Alex hefur liðið fengið Samúel Kára Friðjónsson, Benedikt Warén, Andra Rúnar Bjarnason, Guðmund Baldvin Nökkvason, Guðmund Rafn Ingason, Aron Dag Birnuson og Hrafn Guðmundsson í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×