Íslenski boltinn

Fullt af leikjum fyrir páska og langt hlé hjá konunum

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik á titil að verja í Bestu deildum bæði kvenna og karla.
Breiðablik á titil að verja í Bestu deildum bæði kvenna og karla. Diego/Anton

Knattspyrnusamband Íslands hefur birt drög að leikjadagskrá næstu leiktíðar. Tvær umferðir eru í Bestu deild karla fyrir páska og ein í Bestu deild kvenna sem jafnframt lýkur seinna en ella vegna Evrópumótsins í Sviss.

Ráðgert er að fyrsti leikur Bestu deildar karla verði jafnframt fyrsti leikur Aftureldingar í efstu deild karla, við sjálfa Íslandsmeistara Breiðabliks á Kópavogsvellli, laugardagskvöldið 5. apríl. Fjórar umferðir verða í deildinni í apríl, þar af tvær fyrir páskadag sem er 20. apríl, en áætlað er að lokaumferð Bestu deildar karla verði laugardaginn 25. október.

Fyrstu tvær umferðirnar í Bestu deild karla 2025.KSÍ

Keppni í Bestu deild kvenna hefst með heilli umferð fyrir páska, og eru tveir fyrstu leikirnir þriðjudaginn 15. apríl. Íslandsmeistarar Breiðabliks spila við grannana úr Stjörnunni og Þróttarar taka á móti nýliðum Fram í Laugardal. 

Frumraun í Fjarðabyggðarhöll í apríl

Austurland á nú fulltrúa í deildinni í fyrsta sinn síðan árið 1993 og er fyrsti leikur FHL gegn Tindastóli á Sauðárkróki, og fyrsti heimaleikurinn í Fjarðabyggðarhöllinni við Val 21. apríl.

Hlé verður í Bestu deild kvenna í rúman mánuð, vegna Evrópumótsins í Sviss, en síðasta umferð fyrir hléið verður 21. júní og keppni hefst svo að nýju 24. júlí.

Lokaumferð Bestu deildar kvenna verður því 18. október, tveimur vikum síðar en á síðasta tímabili.

Fyrstu tvær umferðirnar í Bestu deild kvenna 2025.KSÍ

Mjólkurbikar karla hefst strax í mars, eða 28. mars, og Mjólkurbikar kvenna 19. apríl. Ráðgert er að úrslitaleikirnir fari fram í ágúst, þann 16. hjá konunum en 23. hjá körlunum, en til vara gæti úrslitaleikur karla farið fram 19. september, ef þátttaka liða í Evrópukeppnum kallar á það.

Drög að leikjadagskrá í öllum mótum meistaraflokka má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×