Sport

Sævar Ingi mikilvægastur

Tölfræði körfuboltans er margvísleg og gefur mönnum margskonar upplýsingar um frammistöðu leikmanna í Intersportdeild karla. Það er enginn einn tölfræðiþáttur sem nær yfir mikilvægi leikmanna fyrir sín lið. Framlagsjafna NBA-deildarinnar metur heildarframlag leikmanna til síns liðs en það þarf þó ekkert að hafa bein tengsl við gengi liðsins. Fréttablaðið hefur hinsvegar fundið leið til að meta mikilvægi leikmanna með því að skoða gengi liðanna þegar leikmenn skila góðum leikjum (yfir 20 í framlagi) í samanburði í gengi liðsins þegar þeir eiga lakari leiki (undir 20 í framlagi). Menn verða að hafa skilað að minnsta kosti fjórum leikjum yfir 20 í framlagi til þess að komast á listann. Það er hinn 21 árs gamli fyrirliði Haukanna, Sævar Ingi Haraldsson, sem er efstur á blaði þegar þessi mælikvarði á mikilvægi leikmanna er skoðaður. Sævar Ingi hefur skorað 12,7 stig og gefið 6,9 stoðsendingar að meðaltali og er með meðalframlag upp á 16,3 stig hjá Haukunum í vetur. Sævar Ingi hefur verið yfir 20 stig í framlagi í sex leikjum og Haukarnir hafa unnið fimm þeirra (83,3%) en í þeim leikjum sem Sævar Ingi hefur hefur ekki náð framlagi sínu upp í 20 stig þá hafa aðeins 2 af 13 leikjum unnist hjá Haukum (15,4%). Hér munar 67,9% á gengi liðsins. Friðrik Stefánsson hefur einnig veigamiklu hlutverki að sinna hjá Njarðvík og liðið hefur þannig unnið 10 af 11 leikjum þar sem hann hefur náð yfir 20 í framlagi (90,9%) en aðeins 37,5% leikjanna (3 af 8) hafa unnist þegar Friðrik Stefánsson er undir meðallagi en hann er með 13,6 stig, 9,7 fráköst og 2,7 varin skot að meðaltali í leik í vetur.  Darrel Lewis hefur gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna hjá Grindavík en liðið hefur tapað öllum þremur leikjunum sem hann hefur ekki náð yfir 20 í framlagi en hann er með 27,8 stig, 7,9 fráköst og 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik til þessa í vetur. Fjórði maðurinn sem er í sérflokki á þessum lista er Marvin Valdimarsson hjá Hamri/Selfoss en hann hefur leikið mjög vel í vetur og framlag hans skiptir liðið miklu máli. Það munar þannig 48,3% á sigurhlutfalli liðsins hvort hann nær yfir 20 í framlaginu eða ekki en Marvin er með 13,9 stig að meðaltali og hefur nýtt 52% skota sinna og 83% vítanna. Hjá erlendu leikmönnunum er mikilvægi Darrel Flake gríðarlega mikið, liðið hefur ekki unnið leik í þau þrjú skipti sem hann hefur farið undir 20 í framlagi en 75% hinna leikjanna sextán. Félagi Flake hjá Fjölni Nemanja Sovic er í þriðja sætinu en á milli þeirra er nýi Kaninn hjá Skallagrími George Byrd sem hefur styrkt liðið með komu sinni. Það vekur þó mikla athygli að frammistaða Kananna hjá toppliði Keflavíkur hefur lítið með gengi liðsins að gera, Keflavíkurliðinu gengur betur í þeim leikjum þar sem Anthony Glover (-27,3%) og Nick Bradford (-15,4%) eru að gera minna sem sýnir kannski enn frekar hversu breidd liðsins er Keflvíkingum mikils virði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×