Fótbolti

PSV og Za­greb skoruðu fjögur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Malik Tillman og Noa Lang.
Malik Tillman og Noa Lang. Rene Nijhuis/MB Media

Tveimur af leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu karla í knattspyrnu er nú lokið. PSV og Dinamo Zagreb unnu bæði nokkuð þægilega sigra.

PSV fékk Girona í heimsókn og gerði út um leikinn í fyrri hálfleik. Ryan Flamingo kom heimaliðinu yfir eftir undirbúning Malik Tillman þegar rúmlega stundarfjórðungur var liðinn af leiknum.

Tillman sjálfur bætti svo öðru markinu við á 33. mínútu eftir sendingu Noa Lang og staðan 2-0 í hálfleik. Það voru aðeins tíu mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Arnau Martinez fékk sitt annað gula spjald í liði gestanna og þeir því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Ismael Saibari hélt hann hefði komið PSV í 3-0 en markið dæmt af vegna rangstöðu. Johan Bakayoko kom PSV hins vegar í 3-0 eftir sendingu frá Tillman sem var allt í öllu. Það mark stóð, staðan orðin 3-0 og áður en flautað var til leiksloka var staðan orðin 4-0. Ladislav Krejci setti boltann þá í eigið net og fullkomnaði þar með frábært kvöld heimaliðsins.

Lokatölur 4-0 og PSV komið á blað í Meistaradeildinni. Liðið er í 19. sæti með fimm stig að loknum fjórum leikjum. Girona er á sama tíma í 26. sæti með þrjú stig.

Dinamo Zagreb gerði þá góða ferð til Slóvakíu og vann þar 4-1 útisigur á Slovan Bratislava. Sigurlið Zagreb er nú með sjö stig í 10. sæti á meðan Bratislava er á botninum án sigurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×