Sport

Snæfell tapaði óvænt

Fimm leikir voru í Intersportdeild-karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Keflavík sigraði Hamar/Selfoss með 96 stigum gegn 67. Helsti keppinautur þeirra um deildarmeistaratitilinn, Snæfell, tapaði óvænt fyrir ÍR með eins stigs mun í íþróttahúsi Seljaskóla, 77-76. Tindastóll vann mikilvægan sigur á heimavelli þegar liðið sigraði Skallagrím, 115-96. KFÍ, sem þegar var fallið úr deildinni, sigraði KR í framlengdum leik á Ísafirði, 118-117, en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 108-108. Liðin sem léku til úrslita í bikarkeppninni um síðustu helgi, Fjölnir og Njarðvík, áttust við í hörkuleik þar sem Njarðvík tryggði sér sigur á síðustu sekúndunum, 79-77, í Gravarvogi. Það var Halldór Karlsson, fyrirliði Njarðvíkinga, sem skoraði sigurkörfuna þegar flautað var til leiksloka. Keflavík er á toppnum í deildinni með 32 stig þegar þrjár umferðir eru eftir, Snæfell er í öðru sæti með 28 stig, Njarðvík vermir þriðja sætið með 26 stig, Fjölnir er í fjórða sæti með 24 stig, ÍR-ingar í fimmta sæti með 22 stig, Skallagrímur í því sjötta með 20, KR í sjöunda sæti með 18 stig, Grindavík í áttunda með 16, Haukar og Hamar/Selfoss í 9.-10. sæti með 14 stig, Tindastóll í ellefta sæti með 10 stig og KFÍ á botninum með tvö stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×