Sport

Hvar er varnarleikurinn Grindavík?

Grindvíkingar eru eina liðið í sögu úrvalsdeildar karla sem hefur aldrei farið undir 50% sigurhlutfall á tímabili en í vetur hefur hinsvegar lítið gengið. Leikmenn og þjálfarar hafa komið og farið og sem stendur er liðið í áttunda sæti með aðeins 8 sigra og 9 töp. Þetta þykir ekki merkilegur árangur hjá liði sem hefur unnið 35 af 44 leikjum sínum síðustu tvö tímabil (80%) og var spáð þriðja sætinu í árlegri spá fyrir mótið. Grindavík mætir Keflavík í kvöld á heimavelli í leik sem gæti vissulega markað tímamót hjá liðinu í vetur. Grindavík vann síðasta leik með dramatískum hætti á Sauðárkróki í fyrsta leik Jeffrey Boschee í Grindavíkurbúningnum. Boschee var stjörnuleikmaður í háskóla og mikill fengur fyrir Grindavíkurliðið nái hann sér á strik og sóknarlega er Grindavíkurliðið orðið óárennilegt á lokasprettinum. Sóknarleikurinn hefur í raun verið í ágætisformi á tímabilinu, aðeins Fjölnir hefur skorað fleiri stig að meðaltali og ekkert lið hefur skorað fleiri þriggja stiga körfur. En þegar tölfræði varnarleiksins er skoðuð er annað uppi á teningnum. Það eru liðnir rétt tæpir þrír mánuðir síðan liðið náði að halda mótherjum sínum undir 90 stigum og liðið hefur fengið á sig 97 stig að meðaltali undir stjórn Einars Einarssonar en hann tók við í desember. Liðið er að fá á sig 109,2 stig út úr hverjum 100 sóknum andstæðinganna og aðeins botnlið KFÍ er jafn gestrisið í vörninni af liðunum tólf í Intersportdeildinni. Grindvíkingar eiga það reyndar sameiginlegt með KFÍ að vera þeir einu sem hafa aldrei náð að halda andstæðingum sínum undir 80 stigum í fyrsti 17 leikjum Intersportdeildarinnar í vetur. Ekkert lið hefur heldur þvingað færri tapaða bolta hjá mótherjum sínum og þá eru sóknarmenn andstæðinganna að ná í 36,4% frákasta í boði undir körfu Grindvíkinga. Það hefur oft verið sagt að sóknin vinni leiki en það sé vörnin sem vinni titla. Það er alla vega ljóst að Grindvíkingar þurfa að fara að spila vörn ætli þeir sér eitthvað á Íslandsmótinu í ár. Varnartölfræði Grindavíkur í Intersportdeildinni: Stig mótherja: 93,2 (9. sæti) Tapaðir boltar mótherja: 14,2 (12. sæti) Sóknarfráköst mótherja: 14,5 (11. sæti) Stig mótherja á hverjar 100 sóknir: 109,2 (11. sæti) Skotnýting mótherja: 46,1% (7. sæti)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×