Sport

Engill til ÍS

Kvennalið ÍS hefur fengið liðsstyrk fyrir lokasprettinn í 1. deild kvenna í körfubolta því liðið hefur fengið til sín bandaríska framherjann Angel Mason sem mun spila með liðinu út tímabilið. Mason mun leika sinn fyrsta leik gegn KR í kvöld en fjórir leikir eru eftir af deildarkeppninni og er ÍS í 3. sætinu fyrir 17. umferðina. Þar með eru öll sex lið deildarinnar komin með bandarískan leikmann en alls hafa tíu bandarískir leikmenn komið í deildina á þessu tímabil því bæði Keflavík og KR eru á þriðja erlenda leikmanni sínum og Njarðvík hefur auk þess telft fram Bosmann-leikmanni. Mason er 23 ára og 173 sm framherji útskrifuð úr Butler-skólanum í fyrravor þar sem hún var meðal annars verðlaunuð fyrir varnarleik en Mason skoraði 8,5 stig og tók 4,6 fráköst að meðaltali á sínum þremur árum í skólanum en á síðasta tímabilinu stal hún meðal annars boltanum 50 sinnum í 29 leikjum.  Angel er rómaður baráttuhundur og ætti að styrkja lið ÍS mikið en Stúdínur hafa misst út þrjá mikilvæga leikmenn í vetur, þar af tvo elstu leikmenn liðsins Lovísu Guðmundsdóttur og aldursforsetann Hafísi Helgadóttur. Þá hefur Jófríður Halldórsdóttir ekki leikið með Stúdínum eftir áramót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×