Sport

Fannar kominn í þýska boltann

Landsliðsmaðurinn Fannar Ólafsson hefur skipt um lið en hann hefur leikið með gríska 2. deildarliðinu Ase Doukas Athens í vetur. Fannar er nú kominn á reynslusamning hjá þýska 2. deildarliðinu Ratiopharm Ulm en með því liði lék einmitt Logi Gunnarsson áður en hann fékk samning hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Giessen 46ers. Fannar fann sig ekki í Grikklandi í vetur en hann ætti að spila sinn fyrsta leik með Ulm um næstu helgi. Fannar fékk sig lausan frá gríska liðinu sem stóð ekki við sína samninga og þýska liðið þurfti nauðsynlega á liðstyrk að halda þar sem liðið hefur verið að missa leikmenn í meiðsli að undanförnu. Ulm er í öðru sæti í suðurriðli þýsku 2. deildarinnar og hefur unnið 14 af 18 leikjum sínum í vetur en topplið Nurnberg hefur unnið alla sína 18 leiki. Á heimasíðu félagsins er komu Fannars fagnað og talað um að tengslin við Ísland haldi áfram og að Fannar hafi sýnt góð tilþrif á sínum fyrstu æfingum. Logi Gunnarsson var stigahæsti leikmaður Ulm-liðsins þegar hann lék þar síðast tímabilið 2002-03 en Logi skoraði þá 17,6 stig að meðaltali.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×