Skoðun

Að taka á móti börnum á for­sendum þeirra

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Það er eitt mikilvægasta verkefni samfélagsins að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til náms – líka þeim sem hingað flytja og eiga enn eftir að læra tungumálið okkar. Fjölgun barna af erlendum uppruna hefur verið hröð á undanförnum árum; í dag hafa nær 8000 grunnskólanemar erlendan bakgrunn og stór hluti þeirra talar ekki stakt orð í íslensku þegar þau hefja nám. Þessi börn hafa mikinn vilja til að læra, en það er okkar ábyrgð að skapa aðstæður sem gera þeim það raunverulega mögulegt.

Reynsla kennara og skólastjórnenda sýnir að núverandi fyrirkomulag nægir ekki til að mæta þörfum þessa hóps. Kennarar í almennum bekkjum reyna af einlægni að styðja börn sem tala ekki tungumálið, en í fjölmennum bekkjum er einfaldlega ekki hægt að veita þeim þann undirbúning og þann stuðning sem þau þurfa til að fóta sig í nýju samfélagi. Þarna þarf kerfið að bregðast við – með móttökuskólum og móttökudeildum sem byggja á fagmennsku, sérhæfðri kennslu og virðingu fyrir þörfum hvers barns.

Móttökuskólar eru ekki einangrandi heldur inngildandi. Þeir eru fyrsta skref barna að því að verða hluti af íslensku samfélagi. Þar getur barnið lært íslensku á eigin hraða, fengið stuðning við félagsfærni, og ekki síst verið metið af kennurum og sérfræðingum sem greina námsstöðu, málþroska og mögulega erfiðleika. Þegar slíkt mat liggur fyrir getur bekkjarkennari í heimaskólanum tekið við barninu með meiri skilningi og réttum verkfærum. Þannig þjónustum við ekki aðeins barnið sem er nýflutt til landsins – heldur allt skólakerfið.

Þetta er ekki spurning um „töfralausn“, heldur um réttláta og raunhæfa leið til inngildingar. Með því að byggja upp móttökuskóla eða -deildir með samræmdu námsmati, markvissri tungumálakennslu og greiningu á stöðu barna, sköpum við grunn að farsælli menntavegferð. Börnin fá tíma til að aðlagast, vinna úr reynslu og byggja sjálfstraust áður en þau ganga inn í almennan bekk. Samhliða fá kennarar betri yfirsýn, aukið svigrúm og færi á að sinna öllum nemendum sínum af meiri festu og umhyggju.

Reynsla nágrannaþjóðanna sýnir að þetta virkar. Í Noregi og Danmörku hefur verið byggt upp móttökukerfi þar sem markmiðið er að flýta tungumálanámi og styrkja félagslega aðlögun. Þessi nálgun byggir á þeirri einföldu hugsun að best sé að mæta barni þar sem það er – ekki þar sem við viljum að það sé.

Við eigum að leggja grunn að því hér á landi líka. Móttökuskólar og móttökudeildir eru fjárfesting í framtíð barnanna sem hingað koma – og í framtíð íslensks samfélags. Því þegar börnin fá að hefja nám á forsendum sínum, með stuðningi og skilningi, þá eflum við líka bekkjarsamfélagið allt, kennarana og menntakerfið í heild sinni.

Af þessum sökum hef ég nú lagt fram að nýju þingsályktun um að fela mennta- og barnamálaráðherra að setja á fót móttökuskóla.

12/157 þáltill.: þekkingarsetur til undirbúningsnáms fyrir börn af erlendum uppruna | Þingtíðindi | Alþingi

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokks.




Skoðun

Sjá meira


×