Skoðun

Aðal­vanda­málið við mál­tileinkun inn­flytj­enda!

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson skrifar

Aðalvandamálið við máltileinkun innflytjenda er ekki að þeir nenni ekki að læra málið, þjóðargersemina, stolt vort og arfleifð. NEI! Aðalvandamálið er samfélag sem EKKI býður fólk velkomið í (mál)samfélagið með þeim kröfum og hvata sem þar þurfa, verða og eiga að fylgja. Það allt nefnilega í lagi að gera kröfu um íslensku á öllum sviðum íslensks samfélags og fólk á ekki að vera feimið við það. Það er engin, alls enginn, dónaskapur fólginn í því að vilja tala íslensku á Íslandi. En það er samt engin þörf á að sýna dónaskap þegar maður fer fram á það og ber og að hafa í huga að máske þurfi að einfalda mál sitt til að allt komist til skila. En alltént! Séu fáir sem kunna skil á íslensku er það vegna leti samfélagsins, yfirvaldsins, málhafa íslensku, móðurmálshafa og þeirra sem kunna góð skil á málinu við að miðla málinu, við að gera kröfur um íslensku, við að segja: „Hey, ég nenni ekki að tala við þig ensku, en ég skal mjög gjarnan tala við þig íslensku og gera allt sem ég get til að þú skiljir og ég skilji þig. Finnum leið saman.“ Eins og staðan er núna er viðhorfið: Farðu í skóla, lærðu þar en tölum svo bara ensku (meira að segja þeir sem eiga erlendan maka nenna ekki að leggja á sig að miðla málinu) þangað til þú masterar málið, því ég nenni ekki að leggja neitt á mig, ég vil bara geta kvartað undan fólki sem nennir ekki að læra málið og búa til aðgreiningu. Það er svo gaman að geta sagt: Þessir xxxxxxx útlendingar nenna ekki að læra þá víkingadásemd sem íslenskan er. Eitthvað sem er algjört bull. Við höfum málið í okkar höndum og það er okkar að miðla því, það er okkar að fara fram á að málið sé notað og hjálpa til við máltileinkun. En hey, kannski vilja Íslendingar bara hreinlega ekki að innflytjendur verði hluti samfélagsins. Það skyldi þó aldrei vera raunin að allur fagurgalinn um fjölmenningu nái bara til þess að borða fokking kebab og framandi mat borin fram af enskumælandi, oft varla það, láglaunafólki! Já, og svo má tala um það hjá Gísla Marteini löðrandi í skinhelgi og þvælu þess sem veit ekkert um málið en er góður að búa til grípandi frasa. Við búum í andlega lötu samfélagi með uppgerðargóðmennsku og hananú!

Höfundur er kennari íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×