Skoðun

Ólög­mæt sóun skatt­fjár

Markús Ingólfur Eiríksson skrifar

Þjóðfélagslega umræðan undanfarið hefur verið lituð af vangaveltum um í hvað skattpeningarnir okkar fara því fólki finnst réttilega að sú þjónusta sem það á rétt á af hálfu ríkisins sé verulega ábótavant.

Í mínum huga snýst vandinn fyrst og fremst um þá gríðarlegu sóun sem á sér stað á fjármunum ríkisins fremur en einhver pólitísk þrætuepli. Almenn sátt ætti að ríkja um að allir landsmenn hefðu eftir þörfum aðgengi að hágæða þjónustu af hálfu ríkisins, t.d. heilbrigðis-, mennta-, samgöngu, og löggæsluþjónustu, fyrir það skattfé sem er til ráðstöfunar hverju sinni. Síðan má deila pólitísk um hversu háir skattar eigi að vera og hversu mikla þjónustu eigi að veita, en það mikilvægasta er að binda enda á þá sóun á skattfé sem hefur fengið að grassera alltof lengi. Það er reyndar bundið í lög um opinber fjármál að ráðstöfun á skattfé okkar eigi að tryggja „skilvirka og hagkvæma opinbera fjárstjórn og starfsemi.“ Þetta er alls ekki gert í heilbrigðisgeiranum og þar er ekki við forstjóra ríkistofnana að sakast heldur heilbrigðisráðuneytið sjálft og ráðherra málaflokksins.

Órökréttur ríkisrekstur

Forsenda þess að hægt sé að leysa vanda hverju sinni er að átta sig á í hverju hann felst og viðurkenna hann. Því meira sem ég hef kynnst ríkisrekstrinum, því minna skil ég í honum enda er hann órökréttur. Í rauninni er sóunin það mikil að mér ofbýður hvernig farið er með skattfé í landinu okkar. Langflestir finna það á eigin skinni að sú þjónusta sem fólk á rétt á, er verulega ábótavant en áttar sig eðlilega ekki á því hvar er pottur brotinn. Því lít ég á það sem mína samfélagslega skyldu að miðla þeirri vitneskju sem ég hef öðlast svo unnt sé að grípa til bráðnauðsynlegra aðgerða til að draga úr sóun. Það eru kosningar eftir fáar vikur og tíminn er því aldrei betri en núna. Afar mikilvægt er að næsta ríkisstjórn skipi ráðherra sem búi yfir getu til að standa undir þeirri ábyrgð sem þeim verður falin.

Krónunni kastað fyrir aurinn

Listinn yfir brotalamir í rekstri ríkisins er því miður alltof langur. Það sem stingur einna mest í augu er að þegar ákvarðanir um útgjöld eru teknar eru hlutirnir ekki hugsaðir til enda. Aurinn er hirtur og krónunni kastað. Þannig er ekki nægilegu fé varið til fjárfestinga sem draga úr útgjöldum ríkisins síðar meir. Samkvæmt lögreglustjóranum á Suðurnesjum skortir fjárveitingar á landamærunum til þess að hindra för erlendra glæpamanna á leið inn í landið. Skaðinn sem þeir valda íbúum landsins og kostnaður í dómskerfinu er miklu meiri en það myndi kosta að koma í veg fyrir að þeir kæmust inn í landið. Hver er á endanum sparnaður ríkisins af slíku „aðhaldi í ríkisfjármálum“? Það er eins og annað í ríkisrekstrinum, spara aurinn en kasta krónunni.

Ef heimili landsins yrðu rekin eins og íslenska ríkið myndu þau draga úr útgjöldum til kaupa á tannburstum og tannkremi og svo þegar fram liðu stundir, neyðast til að velta vöngum yfir mjög auknum kostnaði vegna tíðra heimsókna til tannlækna.

Þeir sem hafa þekkinguna á kerfinu, hafa völdin

Til að útskýra hvernig íslenska ríkinu er stjórnað má vitna til bresku sjónvarpsþáttanna „Já ráðherra“ (e. Yes minister). Í þeim kemur glöggt fram að þekkingin á hvernig kerfið virkar liggur fyrst og fremst hjá embættismönnunum í ráðuneytunum enda þurfa þeir einvörðungu að setja sig inn í málaflokka þeirra ráðuneytis. Eðli máls samkvæmt eykst þekkingin með starfsaldri þeirra sem er oft langur. Aftur á móti er æði misjafnt hvaða þekkingu þeir hafa á rekstri. Slíkt er bagalegt þar sem að þeir embættismenn sem taka ákvarðanir um fjárveitingar ríkisins hafa í reynd öll völdin í hendi sér. Sá hópur embættismanna er ekki mjög fjölmennur.

Öðru máli gegnir um þekkingu ráðherra sem staldra jafnvel stutt við eða hafa ekki getu til að valda sínu hlutverki. Sömu sögu má segja um kjörna fulltrúa á Alþingi sem hafa það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu.

Það má nefnilega vera ljóst af hnignandi stöðu heilbrigðiskerfisins, að þekking innan þingsins á því hvernig það virkar, er verulega ábótavant. Af þessum sökum þarf að gera þinginu kleift að greiða fyrir veitta sérþekkingu og innsýn í kerfið. Þannig er hægt að snúa upplýsingahallanum við þannig að ráðuneytisstarfsfólkið geti ekki misbeitt þekkingarvaldi sínu.

Plástrar munu ekki duga

Í mínum huga er vandinn við uppbyggingu stjórnkerfis landsins það djúpstæður að hann verður ekki leystur nema með uppstokkun. Að öðrum kosti heldur embættismannaflokkurinn áfram að stjórna landinu með ólýðræðislegum hætti. Þá verðum bara já-ráðherruð áfram, greiðum háa skatta og fáum ófullnægjandi þjónustu af hálfu ríkisins að launum.

Höfundur er doktor í endurskoðun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×