Skoðun

Sál­fræði­með­ferð - Mann­réttindi eða munaður?

Pétur Maack Þorsteinsson skrifar

Íslendingar eru á marga mælikvarða í fremstu röð þjóða heims. Þar eru staðtölur um heilbrigði og heilbrigðiskerfið engin undantekning. Lífslíkur Íslendinga eru með því sem hæst gerist í veröldinni, ungbarnadauði er nær óþekktur og jöfnuður í aðgengi að heilbrigðisþjónustu er með því besta sem gerist.

Íslendingar eiga þess kost að leita lækninga hjá sérgreinalæknum og fá hjá þeim þjónustu sem er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands – okkur sjálfum. Að sama skapi geta Íslendingar nú leitað til sjúkraþjálfara og fengið þjónustu í allt að sex meðferðarskipti án tilvísunar, en til að halda meðferðinni áfram þarf að leita til heilsugæslulæknis og fá tilvísun. Þessir hópar, ásamt fleiri heilbrigðisstéttum halda upp öflugri heilbrigðisstarfsemi sem eins og áður segir er greidd af Sjúkratryggingum Íslands, ýmist að hluta eða að fullu. Þannig höfum við sameiginlega tekið ábyrgð á því að öll höfum við aðgang að öflugri heilbrigðisþjónustu.

Biðlistar sem aðgangshindrun

Á þessu er þó mikilvæg undantekning en það er aðgangur að þjónustu sálfræðinga og sálfræðimeðferð. Lengst af þessari öld voru sálfræðingar í starfi hjá ríkinu nær eingöngu starfandi á geðdeildum LSH og SAK þar sem aðeins þau allra veikustu hafa átt kost á meðferð. Þar hafa biðlistar eftir sálfræðimeðferð jafnan verið langir og undirritaður þekkir dæmi um að fólk hafi setið árum saman á slíkum biðlistum. Frá 2016 hefur sálfræðingum í heilsugæslu fjölgað, en enn þá vantar mikið upp á að sálfræðingar heilsugæslunnar nái að anna eftirspurn eftir sálfræðimeðferð innan heilsugæslunnar. Nær alls staðar þar sem sálfræðimeðferð er í boði í opinbera heilbrigðiskerfinu er bið eftir þjónustu, bara mismikil.

Fjárhagur sem aðgangshindrun

Við þessar kringumstæður leitar mjög stór hluti þeirra sem þurfa sálfræðimeðferð til sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Þá ber svo við að öfugt við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara sem nefndir eru hér að framan er aðeins lítill hluti sálfræðinga með samning við Sjúkratryggingar Íslands um greiðsluþátttöku vegna meðferðar. Þar kemur til að samkvæmt þeim samningi sem stendur sálfræðingum til boða er aðeins greitt fyrir meðferð fáeinna geðraskana auk þess sem hann er nánast óaðgengilegur vegna lágra greiðslna. Þannig greiðir samningurinn til dæmis ekki fyrir sálfræðimeðferð við ýmsum algengum vanda eins og svefnröskunum og ekki er hægt að fá meðferð við þráhyggju- og árátturöskun samkvæmt samningnum svo að tvö dæmi séu tekin. Vegna þessara galla eru aðeins um 30 sálfræðingar aðilar að samningnum en það eru innan við 5% þeirra sálfræðinga sem starfa við að veita sálfræðimeðferð á Íslandi. Sé aðeins horft til þeirra sálfræðinga sem starfa sjálfstætt er samt sem áður aðeins innan við 10% hópsins aðilar að rammasamningi Sjúkratrygginga um sálfræðiþjónustu. Sjálfsögð heilbrigðisþjónusta annarra sjálfstætt starfandi sálfræðinga er ekki niðurgreidd.

Það kostar mest að gera ekkert

Það er ljóst, alveg sama hvernig á það er litið, að aðgengi að sálfræðimeðferð á Íslandi er ekki fyrir öll sem þurfa. Hver einasta stofnun ríkis og sveitarfélaga þar sem sálfræðingar starfa við greiningar og meðferð er stórkostlega undirmönnuð. Ástandinu hefur stundum verið lýst þannig að hver starfstöð sé aðeins einu fæðingarorlofi frá neyðarástandi. Þegar kemur að sálfræðimeðferð á stofu er það ekki undirmönnun sem hindrar aðgengi heldur fjárhagur þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.

Heilbrigðisþjónusta er dýr. Um það er ekki deilt. Það er heldur ekki umdeilt að góð heilbrigðisþjónusta sem veitt er af þjálfuðu fagfólki á viðeigandi stað á réttum tíma er arðbær samfélagsleg fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka. Betra aðgengi að gagnreyndri sálfræðimeðferð dregur mjög úr neikvæðum afleiðingum geðraskana og bætir lífsgæði þeirra sem fá meðferðina og aðstandenda þeirra.

Sálfræðimeðferð á ekki að vera munaður

Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn er í ár helgaður geðheilbrigði á vinnustöðum. Með vaxandi áherslu á mannauðsmál hafa margir vinnustaðir áttað sig á því að geðheilsa verður ekki skilin frá öðrum þáttum heilsu. Á framsæknustu vinnustöðum í þessum efnum er hugað vel að geðheilbrigði starfsfólks og vinnustaðurinn fjárfestir í heilsu síns fólks. Þannig verður val á vinnustað einn af þeim þáttum sem stýra aðgengi fólks að sálfræðimeðferð og annarri geðheilbrigðisþjónustu. Þau skref sem framsæknustu fyrirtæki landsins hafa stigið í þessum efnum eru frábær og virðingarverð. Geðheilbrigði og aðstæður sem gera fólki mögulegt að sinna eigin geðheilsu eru hins vegar sjálfsögð mannréttindi en ekki munaður sem ræðst af efnahag eða hvar maður vinnur. Því vel ég að nota daginn í dag til að minna á hve mikið vantar upp á að þeir Íslendingar sem þurfa á sálfræðimeðferð að halda fái notið hennar.

Við, sem þjóð, þurfum að gera miklu betur.

Höfundur er formaður Sálfræðingafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×