Hákon lék sinn fyrsta mótsleik fyrir Brentford í kvöld og hélt markinu hreinu, meðal annars með því að verja vítaspyrnu, í 1-0 sigri á D-deildarliði Colchester í enska deildabikarnum.
Hákon, sem er 22 ára gamall, kom til Brentford frá Elfsborg í Svíþjóð í byrjun þessa árs. Hann hefur þurft að bíða rólegur eftir tækifæri með aðalliði félagsins og nýtti það vel þegar það kom í kvöld.
Keane Lewis-Potter skoraði mark Brentford rétt fyrir hálfleik en heimamenn í Colchester fengu besta tækifæri sitt til að jafna þegar vítaspyrna var dæmd á 82. mínútu. Hana varði Hákon hins vegar, en spyrnan var beint á markið og náði Hákon að verja með fætinum.
Hákon ætti því að mæta fullur sjálfstrausts í komandi landsleiki við Svartfjallaland og Tyrkland, og þá er spurning hvort hann fái sitt fyrsta tækifæri í ensku úrvalsdeildinni um helgina þegar Brentford tekur á móti Southampton. Hollendingurinn Mark Fleken hefur varið mark Brentford í fyrstu tveimur deildarleikjum tímabilsins, og var aðalmarkvörður liðsins á síðustu leiktíð.
Ipswich úr leik gegn D-deildarliði
Af öðrum úrslitum í enska deildabikarnum má nefna að úrvalsdeildarlið Ipswich féll út gegn D-deildarliði Wimbledon eftir 2-2 jafntefli og vítaspyrnukeppni.
West Ham vann 1-0 gegn Bournemouth, Wolves vann 2-0 sigur á Burnley og Southampton 5-3 útisigur gegn Cardiff. Þá vann Wycombe 1-0 á útivelli gegn Swansea. Leikur Nottingham Forest og Newcastle fór í vítaspyrnukeppni, eftir 1-1 jafntefli, og þar hafði Newcastle betur.