Íslenski boltinn

Bryn­dís Arna er komin heim og samdi við Breiða­blik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Arna Níelsdóttir varð markadrottning þegar hún spilaði síðast í Bestu deild kvenna sumarið 2023.
Bryndís Arna Níelsdóttir varð markadrottning þegar hún spilaði síðast í Bestu deild kvenna sumarið 2023. @breidablikfc

Íslandsmeistarar Breiðabliks í kvennafótboltanum hafa misst marga sóknarmenn í vetur en þær fengu góðan liðstyrk í kvöld.

Breiðablik sagði frá því á miðlum sínum að landsliðskonan Bryndís Arna Níelsdóttir væri búin að semja við Blika fyrir komandi tímabil í Bestu deildinni.

Bryndís Arna er enn bara 22 ára gömul en hún hefur spilað sem atvinnumaður hjá sænska félaginu Växjö DFF undanfarin tvö ár. Bryndís spilaði þó aðeins sex leiki síðasta sumar vegna meiðsla.

Áður en Bryndís fór út spilaði hún tvö tímabil með Val í Bestu deildinni en hún er uppalin í Fylki.

Bryndís skoraði 15 mörk í 22 leikjum með Val sumarið 2023 og varð þá Íslandsmeistari með Hlíðarendafélaginu og markahæst í deildinni.

Sú frammistaða skilaði henni samningi í Svíþjóð. Alls hefur hún skorað 37 mörk í 77 leikjum í efstu deild á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×