Fótbolti

Nefna skó í höfuðið á Kroos: „Hann varð bara ást­fanginn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Adidas hefur ákveðið að nefna Adipure 11Pro skóna í höfuðið á Toni Kroos.
Adidas hefur ákveðið að nefna Adipure 11Pro skóna í höfuðið á Toni Kroos. Carl Recine/Getty Images

Björgvin Hreinsson, alþjóðlegur vörustjóri Adidas, segir að Toni Kroos, fyrrverandi leikmaður Real Madrid og þýska landsliðsins, hafi einfaldlega orðið ástfanginn af Adidas Adipure 11Pro takkaskónum sem komu út fyrir ellefu árum.

Adidas hefur ákveðið að gefa 11Pro skónum nýtt nafn í höfuðið á Kroos og munu skórni héðan í frá heita TKPro. Kroos lék í skónum stærstan hluta ferilsins, en hann hefur nú lagt skóna á hilluna eftir að Þjóðverjar duttu úr leik á EM eftir 2-1 tap gegn Spánverjum síðastliðinn föstudag.

Kroos hefur leikið í skónum frá því að þeir komu fyrst út árið 2013. Í skónum hefur hann því fjórum sinnum fagnað spænska meistaratitlinum og Meistaradeild Evrópu fimm sinnum með Real Madrid. Þá var hann einnig í skónum þegar hann varð heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2014.

Á meðan margir leikmenn skipta reglulega um skó hefur Kroos hins vegar haldið sig við 11Pro skóna, sem nú heita TKPro. Björgvin Hreinsson, alþjóðlegur vörustjóri Adidas, segir ástæðuna fyrir því einfalda í samtali við The Athletic.

„Þegar Toni byrjaði hjá Adidas þá spilaði hann í Predator þegar hann var hjá Bayer Leverkusen,“ segir Björgvin.

„Þegar við byrjuðum svo með Adipure skóna árið 2008 þá var hann eitt af lykilandlitunum í þeirri herferð. Síðan þá hefur hann spilað í Adidas Adipure 11Pro nánast frá því að þeir komu fyrst út.“

„Síðan hélt hann þeim bara. Við héldum áfram að þróa skóna og iðnaðurinn stækkaði, en Toni - alveg síðan 2013 þegar skórnir komu út - hann varð bara ástfanginn,“ sagði Björgvin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×