Íslenski boltinn

Hringdu dag og nótt til að kló­festa Guð­mund: „Konan var að verða geð­veik á þeim“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur gerir tveggja ára samning við Skagamenn.
Guðmundur gerir tveggja ára samning við Skagamenn.

Eftir fimmtán ár í atvinnumennskunni er Guðmundur Þórarinsson kominn aftur heim. Hann hefur samið við Skagamenn og leikur með þeim í Bestu-deild karla í sumar. Guðmundur gerir samning við Skagamenn til næstu tveggja ára. Guðmundur, lék síðast hér á landi árið 2012 með liði ÍBV í efstu deild en fram að tíma sínum í Vestmannaeyjum hafði hann aðeins spilað með uppeldisfélagi sínu, Selfossi.

Í atvinnumennskunni lék hann með liðum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Grikklandi og nú síðast í Armeníu.

„Allt við klúbbinn heillaði mig og allt við Skagamenn heillaði mig,“ segir Guðmundur í sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi.

„Þeir lögðu mikið á sig að fá mig og hringdu dag og nótt. Konan var að verða geðveik á þeim,“ segir Guðmundur og hlær.

„Allt sem þeir kynntu fyrir mér, mitt hlutverk innan vallar og utan, var eitthvað sem ég var gríðarlega spenntur fyrir. Það er alvöru metnaður í gangi þarna og komin ný aðstaða svo það er allt upp á tíu. Þeir eru byrjaðir að æfa klukkan 11 sem eðlilega er spennandi tengt fjölskyldulífi,“ segir Guðmundur en höfðu fleiri lið samband við hann?

„Það hefur eitthvað verið talað um aldursfordóma í deildinni en það höfðu ansi mörg lið samband og ég er gríðarlega þakklátur fyrir það. En á endanum stóð þetta á milli þriggja félaga og þetta var frábær lending.“

Skagamenn byrjuðu síðasta tímabil mjög illa en fóru síðan á flug seinnipartinn.

„Menn þurfa mæta klárir í mót og það þarf að vera einbeiting á öllu sem við erum að gera. En ég kynnti mér aðeins hópinn og þekki hann aðeins eftir að hafa fylgst vel með síðastliðin tvö ár. Ég er ekkert hræddur við það að segja að við ætlum bara að gera árás. Við erum að byggja upp það spennandi lið og góða aldurssamsetningu finnst mér,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×