Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Árið 1969 var stórmerkilegt ár í mannkynssögunni. Á þessu ári gengu Neil Armstrong og Buzz Aldrin fyrstir manna á tunglinu, hin sögufræga tónlistarhátíð Woodstock fór fram og hljómsveitin Rolling Stones gaf út plötuna „Let it Bleed“ með laginu „You Can't Always Get What You Want.“ Árið 1969 var líka merkilegt í sögu Íslands. Hljómsveitin Trúbrot var stofnuð, álframleiðsla hófst í Straumsvík og þann 19. maí árið 1969 sömdu Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands um að stofna lífeyrissjóð fyrir verkafólk. Þar með yrði fólk skyldað til að greiða hluta af launum sínum í lífeyrissjóð á hverjum mánuði og var markmiðið að tryggja fólki lífeyristekjur á eftirlaunaárunum.

Þegar undirstöðurnar að íslenska lífeyriskerfinu voru lagðar með kjarasamningum milli Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ), var gert ráð fyrir að lífeyriskerfið byggði á tveimur aðskildum stoðum; almannatryggingakerfinu annars vegar og lífeyrissjóðakerfinu hins vegar. Samkvæmt flestum heimildum frá þeim tíma virðist sú hugmynd hafa verið ríkjandi að greiðslur úr lífeyrissjóðunum í framtíðinni ættu að vera sjálfstæður viðbótarlífeyrir, óháðar ellilífeyrisgreiðslum almannatrygginga. En hvernig hefur þetta fyrirkomulag þróast síðan 1969?

Í dag er fólk enn skyldað til að greiða í lífeyrissjóði, hvort sem því líkar betur eða verr, og fólki er sagt að þessir peningar séu sparifé þess. Síðan kemur ríkið og tekur stóran hluta lífeyrisins til sín í formi skerðinga. Þetta fyrirkomulag verja stjórnvöld þrátt fyrir að það sé í andstöðu við samkomulagið sem lá til grundvallar lífeyriskerfinu frá árinu 1969.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp Flokks fólksins sem miðar að því að hækka frítekjumark lífeyristekna úr 25.000 kr. á mánuði í 100.000 kr. Þrátt fyrir þunga undiröldu og ákall um aukið réttlæti fyrir eldra fólk og afnám skerðinga hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki sýnt þessu máli áhuga. Í þessu samhengi minna þeir á orð Rolling Stones: „You can't always get what you want". En því má breyta. Þeir sem vilja hækka frítekjumark lífeyristekna geta látið það gerast. Við þurfum bara að kjósa Flokk fólksins.

Fólkið fyrst, og svo allt hitt! Áfram veginn.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×