Skoðun

Skóla­sókn í for­gang og aukin virðing fyrir skóla­starfi

Steinn Jóhannsson skrifar

Undanfarið hefur farið fram umræða um fjarveru nemanda frá skólastarfi vegna ferðalaga og leyfa af ýmsum toga. Leyfisóskum foreldra vegna fría innanlands og erlendis á skólatíma hefur fjölgað og er það eitthvað til að hugsa um. Í einhverjum tilfellum hafa mál komið inn á borð barnaverndaryfirvalda þegar fjarvera vegna ferðalaga er orðin óhóflega mikil.

Fjarvera nemenda frá skólastarfi er svo sannarlega áhyggjuefni og getur fjarveran í einhverjum tilfellum haft alvarleg áhrif á gengi nemenda í námi og minnkað skuldbindingu nemenda til náms. Í mörgum löndum gilda strangar reglur um slík leyfi og eru þau að jafnaði ekki veitt vegna ferðalaga. Í Þýskalandi og Lúxemborg hafa barnaverndaryfirvöld stigið inn þegar fjarvera skólabarna fer yfir viss mörk, t.d. vegna ferðalaga. Það er ljóst að tíðar ferðir sem auka fjarveru frá skóla geta valdið miklu álagi og haft áhrif á andlega líðan nemenda. Nemendur geta byggt upp kvíða vegna erfiðleika sem kunna að koma upp í tengslum við að tileinka sér námsefnið og fylgja eftir jafnöldrum sínum í námi. Fjarvera frá skóla getur mögulega valdið skólaforðun og því að nemendur einangrist félagslega.

Það sem kannski skiptir mestu máli er að auka virðingu foreldra og nemenda fyrir því að skólasókn skiptir máli og hefur áhrif á námsárangur. Hætt er við því að nemandi sem er fjarverandi vegna tíðra ferðalaga tileinki sér þá skoðun að fjarvera úr skóla sé í lagi. Góð skólasókn er lykillinn að árangri á öllum skólastigum og nemendur sem mæta illa eru líklegri til að falla úr námi.

Íslenski framhaldsskólinn hefur á liðnum árum glímt við hátt brotthvarf í samanburði við önnur OECD-lönd og hugsanlega hafa tíð leyfi þar áhrif á. Í ljósi þessa hvet ég foreldra til að setja skólasókn barna sinna í forgang. Þannig má byggja upp virðingu fyrir skólastarfinu og mikilvægi þess og um leið stuðla að meiri virðingu fyrir kennarastarfinu. Börn og unglingar tileinka sér ekki virðingu fyrir skólastarfi ef þeim er oft kippt úr skóla vegna ferðalaga og þá eru það ekki hagsmunir barnanna/unglinganna sem ráða för. Góð skólasókn er grunnur að aukinni farsæld og betri árangri fyrir alla nemendur.

Höfundur er rektor Menntaskólans við Hamrahlíð.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×