Skoðun

Penna­strik frá 2018 elta ó­undir­búinn fyrr­verandi ferða­mála­ráð­herra

Jökull Sólberg skrifar

Þegar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var ferðamálaráðherra setti hún reglugerð þar sem felld var brott krafan um að að íbúðagisting skyldi aðeins starfrækt í skráðu atvinnuhúsnæði. Þannig opnaði Þórdís Kolbrún mjög skýrt og meðvitað fyrir skammtímagistingu í íbúðarhúsnæði umfram það sem reglur um Airbnb leyfa. Leiðin sem er farin er að íbúðirnar eru í eigu einstaklinga sem greiða fasteignagjöld eins og ef um íbúðarhúsnæði sé að ræða, en leigusamningur svo undirritaður við félög sem rótera ferðamönnum í íbúðinni allt árið um kring.

Í rökstuðningi ráðuneytisins á sínum tíma var sagt að það væri ekki réttlætanlegt að leggja kröfur á eigendur íbúðarhúsnæðis um ráðstöfun húsnæðisins. Einhver svona frjálshyggjulína sem Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur fyrir.

Útkoman er núna sú að hægt er að leigja út íbúðarhúsnæði allt árið um kring til ferðamanna en komast hjá fasteignagjöldum og margs konar kvöðum sem fylgja leyfisskyldri gististarfsemi. Þetta bitnar helst á einu sveitarfélagi, Reykjavíkurborg, sem hefur nú færri tæki og tól en ella til að sinna skipulagshlutverki sínu og minni tekjur til að standa undir grunnþjónustu en annars.

Í dag 7. desember, var Þórdís Kolbrún, sem nú er fjármála- og efnahagsráðherra, spurð af Kristrún Frostadóttur í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi hvað hafi vakið fyrir henni þegar hún breytti reglugerð um gististaði með þessum hætti. Ég hlustaði á svör hennar í útsendingu Alþingis, og það er skemmst frá því að segja að hún gat engu svarað um hvers vegna hún setti reglugerðina. Þórdís skoraði á Kristrúnu að tala við sína flokksfélaga í borginni og lætur eins og ábyrgðin sé öll þar - en hún veit vel að það er hún sjálf sem torveldaði sveitarfélögum að koma böndum á skammtímaleigumarkaðinn - með skaðlegri reglugerðarbreytingu sem verður að vinda ofan af sem fyrst.

Höfundur er forritari.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×