Skoðun

Hnefa­rétturinn

Sigurður Örn Hilmarsson skrifar

Í morgun voru sagðar fréttir af því að hópur fólks hefði safnast saman við fangelsið á Hólmsheiði og ætlaði að sögn að koma í veg fyrir flutning konu til Noregs „með öllum tiltækum ráðum.“

Þetta tengist forsjárdeilu tveggja einstaklinga sem hefur verið mikið í fréttum undanfarna mánuði. Þessi grein er ekki um deiluna sjálfa enda þekki ég ekki málavexti og ætla ekki að kveða upp neina dóma hvað málið varðar. Þess þarf heldur ekki. Nokkur fjöldi dóma hafa þegar verið kveðnir upp. Ekki af dómstóli götunnar, heldur áfrýjunardómstólum í Noregi og Íslandi.

Þó einhverjum kunni að mislíka niðurstaða dómstólanna um að faðir barnanna skuli fara með forsjá þeirra, þýðir það ekki að borgararnir eigi að taka lögin í sínar hendur.

Við sem samfélag höfum sett okkur sáttmála. Stjórnarskráin geymir grundvallarreglur okkar, lýðræðislega kjörið Alþingi setur lögin, dómstólar leysa úr ágreiningi um réttindi og skyldur borgaranna og framkvæmdarvaldinu er svo falið að framfylgja niðurstöðum þeirra. Ríkisvaldið hefur einkarétt á valdbeitingu á grundvelli laga og dóma.

Á þetta er minnt ekki eingöngu í dómum Hæstaréttar Íslands heldur líka í húsnæði réttarins. Margsinnis hef ég litið glerlistaverk Leifs Breiðfjörð í aðaldómsal Hæstaréttar. Verkið er holl áminning til allra sem í þingsalinn koma, jafnt dómara, málflytjenda og málsaðila. Þar gefur að finna tilvitnanir úr Jónsbók um skyldur dómara og eið málflytjenda, sem og þessi orð Njáls Þorgeirssonar: „Eigi er það sættar rof, að hver hafi lög við annan, því að með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða.”

Telji einhver brotið á réttindum sínum er ávallt hægt að leita laganna leiða, en hnefarétturinn getur ekki ráðið för. Við útkljáum deilur okkur fyrir dómstólum, en ekki á vegslóða við Hólmsheiði.

Höfundur er formaður Lögmannafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×