Skoðun

Ráðherrar til bjargar Reykvíkingum?

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Á síðustu dögum þingsins samþykkti Alþingi frumvarp dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um breytingu á lögum um útlendinga. Breytingin sneri m.a. að rýmkuðum reglum um dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu (au pair). Nú verður því heimilt að endurnýja leyfin í eitt ár, að hámarki í tvö ár, en áður var ekki heimilt að endurnýja slík dvalarleyfi.

Í vetur hvatti ég ráðherra einmitt til að gera þessa breytingu sem kemur sér vonandi vel og gerir sitt til að minnka pressuna á foreldra ungra barna í Reykjavík. Þar bíða hátt í þúsund börn eftir leikskólaplássi og meðalaldur barna við innritun á leikskóla er 23 mánuðir. Þetta er þung staða og kjósendur meirihlutans í Reykjavík, sem létu m.a. glepjast af margendurunnu kosningaloforði um leikskólapláss fyrir 12 mánaða borgarbúa, eru orðnir þreyttir á ástandinu. Ég verð ekki mjög hissa ef þeir endurvekja mótmælin frá s.l. hausti og mæta í Ráðhúsið eftir sumarleyfi.

Fróðlegt verður líka að fylgjast með stöðunni á frístundamálum borgarinnar í haust. Ég hef fengið samhljóða tölvupóst öll mín ár sem foreldri grunnskólabarns í Reykjavík – „Barn á biðlista um sinn“ – og læt mér því ekki bregða ef hann poppar upp núna í ágúst. Ég leyfi spenntum lesendum hér á Vísi að fylgjast með framvindunni.

Ég er þingmaður Reykvíkinga og er boðin og búin að aðstoða íbúana í mínu kjördæmi eftir fremsta megni. Það er jákvætt að ríkið hafi tekið skref til að koma til móts við foreldra í dagvistunarmálum. Munar um það vegna vangetu sumra sveitarfélaga til að brúa bilið frá fæðingarorlofi. Ég hef því áfram augun opin varðandi önnur mál í borginni okkar, a.m.k. þar til ný stjórnvöld sem forgangsraða í þágu grunnþjónustu borgarbúa taka þar við stjórnartaumunum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×