Fótbolti

Cristiano Ronaldo komst upp fyrir Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fær afar vel borgað í Sádí Arabíu og það hefur komið honum á toppinn.
Cristiano Ronaldo fær afar vel borgað í Sádí Arabíu og það hefur komið honum á toppinn. Getty/Stringer

Cristiano Ronaldo er launahæsti knattspyrnumaður heims samkvæmt nýrri úttekt Forbes en hann hækkaði sig mikið í launum með því að komast til Sádí-Arabíu.

Ronaldo komst þar með upp fyrir Lionel Messi og Kylian Mbappe sem eru í næstu sætum á eftir honum á nýjum lista Forbes.

Ronaldo nær tvöfaldaði leikmannalaunin sín með því að semja við Al Nassr en hann vann sér inn 136 milljón dollara en var með 75 milljónir dollara sem leikmaður Manchester United á síðasta ári.

Hann fór því úr 10,2 milljörðum króna upp í 18,6 milljarða króna í árslaun.

Ronaldo fær sex milljón dollurum meira en Messi eða 819 milljónum meira talið í íslenskum krónum.

Hinn 24 ára gamli Mbappe er yngstur meðal þeirra launahæstu í heimi en hann fær 120 milljónir dollara í laun eða um 16,4 milljarða króna.

LeBron James hjá Los Angeles Lakers og mexíkanski hnefaleikakappinn Canelo Alvarez eru síðan hinir á topp fimm listanum.

Tveir golfarar eru meðal tíu launahæstu eða þeir Dustin Johnson og Phil Mickelson en þeir skiptu báðir yfir á LIV mótaröðina.

NBA-stjörnurnar Stephen Curry og Kevin Durant eru báðir meðal tíu launahæstu.

Tenniskappinn Roger Federer er síðan sá eini á topp tíu listanum sem er hættur að keppa.

Forbes tekur saman allar tekjur íþróttafólksins af því að spila íþróttina það er laun, verðlaunafé og bónusa á síðustu tólf mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×