Skoðun

Staðlar og að­gerðir í loftslagsmálum á Ís­landi

Haukur Logi Jóhannsson skrifar

Umhverfisstofnun hefur nú skilað landsskýrslu sinni um losun gróðurhúsalofttegunda (NIR) fyrir árið 2021 til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins og var það opinberað í dag. Í stuttu máli er óhætt að fullyrða að við séum ekki á góðum stað hvað varðar að uppfylla skuldbindingar okkar. Þetta kemur þó ekkert mikið á óvart fyrir okkur sem lifum og hrærumst í þessum heimi. Stóra spurningin er bara hvað ætla stjórnvöld nú að gera?

Fá málefni samtímans eru eins aðkallandi og að bregðast við loftslagsbreytingum. Því er þessi nýjasta skýrsla Umhverfisstofnunar ákveðinn áfellisdómur á stjórnvöld. Það eru hinsvegar tilbúnar lausnir sem þyrfti ekki að eyða löngum nefndarfundum í að ræða og góð samstaða ætti að geta náðst um. Staðlaðar lausnir sem stjórnvöld víðsvegar um heim reiða sig á og eru að ná mun betri árangri heldur en Íslendingar með slík vopn í hendi sér í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Heimurinn glímir við mörg vandamál en loftslagið sameinar okkur. Það er því nauðsynlegt að samstaða um mótvægisaðgerðir séu sem mestar til að árangur náist. Samstöðuna höfum við séð raungerast í Parísarsamkomulaginu frá árinu 2015 og við Íslendingar höfum tekið virkan þátt í því. Orð og aðgerðir fylgjast hins vegar ekki alltaf að og góðum fyrirheitum fylgja ekki alltaf raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum. Vandamálin eru oft af efnahagslegum toga en í sumum tilfellum er einfaldlega ekki þekking til staðar á þeim lausnum sem í boði eru. Staðlar geta verið vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar og hefur nú þegar verið þróuð röð staðla sem styður við aðgerðir í loftslagsmálum.

ISO staðlar eru unnir í samstarfi margra þjóða og með stuðningi Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og Alþjóðabankans, geta þeir hentað öllum sem vilja leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsbreytingar þar sem þá er hægt að aðlaga að ýmsum aðstæðum

Af hverju þörfnumst við ISO staðla í baráttunni við loftslagsbreytingar?

Það eru fjölmargar ástæður fyrir nytsemi staðla þegar kemur að loftslagsbreytingum. Hér eru nokkrar ástæður:

  • ISO umhverfisstaðlar opna markaði fyrir hreina orku og orkusparandi tækni ásamt því að styðja við aðlögun og mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum
  • ISO staðlar auðvelda stjórnvöldum og stofnunum að takast á við loftslagsbreytingar
  • ISO staðlar eru mikilvægir fyrir markaði með gróðurhúsalofttegundir, svokallaða cap- and trade schemes (viðskiptakerfi), afskráningu kolefniseininga, kolefnishlutleysi ásamt áætlunum og stefnum um minni losun.
  • ISO umhverfisstaðlar leggja sitt af mörkum til heimsmarkmiðs númer 13 um aðgerðir í loftslagsmálum.

Hverjum nýtast ISO staðlar í baráttunni við loftslagsbreytingar?

ISO staðlar geta nýst öllum iðnaði, stjórnvöldum og neytendum. Þeir geta nýst fyrirtækjum af ýmsum toga við að aðlagast regluverki um loftslagsmál en að sama skapi geta fyrirtæki náð tökum á eigin umhverfisþáttum og áhrifum þeirra. Þeir auðvelda stjórnendum fyrirtækjum að grípa til aðgerða til að draga úr fótspori þeirra á umhverfið, stuðla að orkunýtni og við að meta áhættu sem fylgir loftslagsbreytingum.

Stjórnvöld geta nýtt ISO staðla sem grunn við að byggja stefnu og regluverk í kringum loftslagsmál og leggja sitt af mörkum til alþjóðlegra skuldbindinga auk þess að takast á við þær mörgu áskoranir sem myndast sökum loftslagsbreytinga.

Neytendur hagnast á því að þeir séu innleiddir af fyrirtækjum og stjórnvöldum. Það gerist með bættri stjórnun og orkunýtingu ásamt umhverfisvænum innviðum og stefnum.

Hvað er til í ISO safninu?

ISO 14000 er sett umhverfisstjórnunarstaðla sem þróaðir hafa verið af tækninefndinni ISO/TC 207. Sú tækninefnd hefur þróað rótgróin og alþjóðleg viðmið um ábyrga starfshætti þegar kemur að umhverfisstjórnun. Þeir staðlar sem nú eru aðgengilegir eru fjölmargir og í sífelldri þróun. Meðal þeirra eru:

Mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda

Mótvægisaðgerðir og aðlögun

Fjármögnun grænna loftslagsverkefna

Upplýsingagjöf um árangur í umhverfismálum

Heimsmarkaður með hreina orku

Þetta er aðeins hluti þeirra staðla sem til eru og nýst geta í baráttunni við loftslagsbreytingar. Fleiri eru í vinnslu og aðrir sérhæfðari staðlar til fyrir einstakar atvinnugreinar. Nánari upplýsingar er að finna í bæklingi ISO um staðla og loftlagsbreytingar sem nálgast má hér. 

Að lokum má nefna séríslenska tækniforskrift, ÍST TS 92 – Kolefnisjöfnun, sem var gefin út í september í fyrra og er hugsuð sem viðbót við ISO 14064 staðlaröðina og gerir fyrirtækjum á Íslandi kleift að kolefnisjafna rekstur sinn með skilvirkum hætti og loftslagsverkefnum að framleiða vottaðar kolefniseiningar.

Við Íslendingar þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Þetta er allt saman til og aðgengilegt svo við getum byrjað að raunverulega draga úr losun og byggja sjálfbært samfélag.

Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur og verkefnistjóri hjá Íslenskir staðlar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×