Situr ekki auðum höndum
Spænski efnafræðingurinn Rafael Luque situr ekki auðum höndum. Hann hefur gefið út í kringum 700 fræðigreinar á ferlinum og á þremur fyrstu mánuðum þessa árs gaf hann út 58 fræðigreinar. Það er ein grein á 37 klukkustunda fresti. Hann er sérfræðingur í grænni efnafræði, sem eins og nafnið gefur til kynna snýst um umhverfisvæna efnafræði.
Undanfarin fimm ár hefur hann verið á lista yfir þá vísindamenn sem oftast er vitnað til í fræðaheimum. Háskólar um allan heim berjast með kjafti og klóm fyrir því að fá slíka menn í lið með sér, þar sem það eitt og sér getur dugað til að koma háskólum á lista yfir bestu háskóla heims. Sem er gríðarlega mikilvægt þegar leita þarf fjárframlaga til að styðja við rannsóknir og annað háskólastarf.
Leyfir öðrum háskólum að nota nafn sitt
Rafael Luque er prófessor í fullu starfi við háskólann í Córdoba á Suður-Spáni, fæðingarborg sinni, en háskólinn hefur nú rekið hann úr starfi, og sett hann í 13 ára bann við skólann. Ástæðan er sú að hann tiltekur í fræðigreinum sínum að hann sé einnig fræðimaður við háskóla í Sádi Arabíu og Rússlandi.
Þetta eru skólar sem hafa lagt áherslu á að laða þekkta vísindamenn að sínum skólum, t.a.m. lofaði háskólinn í Sádi Arabíu sem kenndur er við konunginn Saud, vísindamönnum 70.000 evrum, andvirði rúmlega 10 milljóna króna á ári, fyrir það eitt að segjast vera fræðimenn við skólann þegar þeir skrifi greinar.
Notar gervigreind til að flýta fyrir sér
Luque gaf út 110 greinar í fyrra og hefur á þessu ári, eins og fyrr segir, gefið út 58 greinar. Hann viðurkennir að hann noti gervigreindarforrit til að flýta fyrir sér. Háskólinn í Córdoba hefur hins vegar fengið sig fullsaddan af þessari miklu framleiðni sem og því að Luque láni eða selji háskólum í Sádi Arabíu og Rússlandi nafn sitt og hefur því rekið hann.
Segir háskólann skjóta sig í fótinn
Luque er kokhraustur, heldur því fram að hann hafi ekki aðhafst neitt misjafnt, allt sé þetta sprottið af einskærri öfund, og að háskólinn í Córdoba sé að skjóta sig í fótinn. Einu afleiðingar verði þær að skólinn húrri út af listanum yfir bestu háskóla í heimi.