Skoðun

Takk!

Björg Þórsdóttir skrifar

Í haust lýkur yngsta dóttir mín leikskólagöngu sinni og ákveðnum kafla í bók fjölskyldunnar lokið. Því fylgja blendnar tilfinningar, enda hefur margt gerst á þessum árum; margt sem maður myndi vilja endurtaka og annað ekki. En ég finn hjá mér djúpa þörf fyrir að segja takk.

Takk, kæru leikskólakennarar og starfsfólk leikskólanna sem dætur mínar hafa verið á.

Takk fyrir að kyssa á bágtið.

Takk fyrir að kynna koppinn.

Takk fyrir að syngja.

Takk fyrir að lesa.

Takk fyrir að segja sögur.

Takk fyrir að hlusta á þeirra sögur.

Takk fyrir að hjálpa okkur að finna út úr þessu með mjólkuróþolið.

Takk fyrir að muna eftir því að frændi stelpnanna átti stígvélin á undan þeim og þessvegna voru þau ekki rétt merkt.

Takk fyrir að minna okkur á að panta nafnalímmiða.

Takk fyrir allar sögurnar og myndirnar af stelpunum.

Takk fyrir að skrifa niður það sem þær höfðu að segja.

Takk fyrir að bjóða okkur í kaffi, þegar það mátti.

Takk fyrir að lána pollagalla þegar við gleymdum honum heima.

Takk fyrir að eiga auka föt, þegar aukafata-kassinn var tómur.

Takk fyrir að sitja á gólfinu með þeim.

Takk fyrir renna upp og setja yfir og teygjuna undir.

Takk fyrir að setja teygju í hárið.

Takk fyrir að kenna rétt grip á liti og skæri.

Takk fyrir að fylgjast með orðaforðanum.

Takk fyrir að standa vaktina í covid-ástandinu!

Takk fyrir að vera lausnarmiðuð, hugmyndarík og harðdugleg.

Takk fyrir að finna leiðir í myglu, manneklu og mótlæti.

Takk fyrir að vera ennþá á leikskólanum með mikilvægasta fólkinu, börnunum okkar.

Þið eigið allt það besta skilið.

Höfundur er tónmenntakennari og þriggja barna móðir.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×