Skoðun

Ljáum konum eyru

Sigríður Vilborgar Magnúsdóttir skrifar

Fyrir nokkrum dögum byrjaði umræða í samfélaginu sem snerti við mér persónulega og hef ég verið alvarlega hugsi síðan. Í kjölfar Kveiks þáttsins um Bergþóru Birnudóttur og átakamikla sögu hennar af barnsburði þar sem hún lýsti sinni upplifun að ekki hafi verið hlustað á hennar áhyggjur á meðgöngu og í fæðingu sem varð til þess að hún örkumlaðist. Í kvöld las ég grein frá lækni þar sem hann lýsir yfir stuðningi sínum við ljósmæður sem fékk mig til þess að hugsa. Þetta er einungis mín persónulega upplifun og mín reynsla hefur ekkert um stuðning minn til ljósmæðra að gera og í raun tengist þetta ekki tiltekinni starfstétt að mínu mati. Þetta er kerfislægur vandi sem þarf að uppræta. Fyrir ári síðan átti ég mitt fyrsta barn. Meðgangan gekk brösulega að því leyti að ég kastaði upp alla meðgönguna, hélt engu niðri og léttist mikið. Ég lýsti áhyggjum mínum varðandi uppköstin fyrri hluta meðgöngunnar og síðar vegna gruns míns um meðgöngueitrun. Ég er gangsett á 38 viku vegna meðgöngueitrunar, uppgefin á líkama og sál, hrædd og svekkt yfir að svona hefði farið. Ég upplifi einmitt, að ekki hafi verið hlustað á mig og mínar áhyggjur til fulls.

Þessi umræða er jafn mikilvæg og hún er viðkvæm. Ég skil báðar hliðar að mörgu leyti vegna þess að ég er annars vegar kona sem upplifir að ekki hafi verið hlustað á sig en hins vegar er ég heilbrigðis menntuð og get ekki ímyndað mér að sjá sögur þar sem starfstéttin mín væri til umræðu að við hlustuðum ekki á skjólstæðinga okkar. Ljósmæður og fæðingarlæknar eru fagfólk í sínu sviði og sinna þau göfugu og fallegu starfi. Þrátt fyrir það verðum við að horfast í augu við það þegar eitthvað má betur fara og er opin umræða fyrsta skrefið í átt að betri framvindu. Í mínum augum er vandinn margþættur. Í heilbrigðis tengdum störfum, líkt og öllum öðrum störfum getur starfsfólk orðið samdauna sínum starfs-raunveruleika. Þá hættir það mögulega að sjá mikilvægi þess að halda skjólstæðingum og aðstandendum upplýstum um stöðuna, möguleika í meðferð og framhaldið. Ekki vegna þess að heilbrigðisstarfsmaður lítur svo stórt á sig að hann þurfi ekki að deila, heldur vegna þess að þetta er orðið hversdagsleikinn þeirra og margt komið í vöðvaminni. Þau eru mannleg líka nefnilega. 

Í sumum tilfellum má velta fyrir sér forræðishyggju í heilbrigðiskerfinu okkar - sem margar konur virðast upplifa í meðgöngu- og fæðingarferlinu. Þá er þín upplifun á eigin líkaman dregin í efa. Tölurnar segja annað, verkferlar falla ekki undir einkennin, legbotnshæðin bendir ekki til, einkennin geta verið eðlileg, kona er ekki nógu þung, það eru hreyfingar hjá fóstri, getur verið útferð eða blóðþrýstingur ekki nógu hár. Í öðrum tilfellum má velta fyrir sér vott af kvenfyrirlitningu í heilbrigðiskerfinu okkar og er mér minnisstætt þegar ég er ófrísk og kunningjakona mín segir við mig, alvarleg á svip: ,,Mundu það bara Sigga mín, að ef eitthvað kemur fyrir stelpuna. Sendu pabba hennar með hana til læknis því þá fær hún greiðari aðgang að þjónustu og fyrr heldur en ef þú ferð með hana.” En konur hafa ítrekað og áratugum saman þurft að sitja undir ,,móðursýkis stimplinum” af því þær eru dramatískar, sækja þjónustu “of snemma”, stífar, stressaðar og ágengar.

Í mæðravernd er verðandi móðir spurð út í hvort hún eigi einhver áföll, þá helst ofbeldistengd eins og kynferðislegt ofbeldi eða slíkt og er hún þá hvött til að vinna í áfallinu. Á meðgöngu missir kona oft tök á ýmsu varðandi líkamann sinn, kviðurinn stækkar til að rýma barnið og oft aðrir hlutar líkamans með, ógleði og uppköst, yfirþyrmandi þreyta, óbeit á lykt eða mat en þurfa samt sem áður að borða holla og fjölbreytta næringu, geta ekki beitt sér eins og áður, hafa ekki stjórn á tilfinningum sínum og þvagi svo eitthvað sé nefnt. Konur geta upplifað sig einar í heiminum á meðgöngu. Það getur reynst konum virkilega erfitt að deila líkama sínum og upplifa sig vanmáttugar og ofan á það fá þær samviskubit fyrir slíkar tilfinningar því þetta er svo fallegt ferli. Staðreyndin er samt að ferlið getur rifið upp gömul áföll. Í dag sé ég hvers vegna spurningin er tekin upp - en það er vegna þess að konur missa stjórnina á eigin líkama og eru fullkomlega berskjaldaðar á meðgöngu og fæðingu. Þegar að kona hefur lítil völd á eigin líkama er mikilvægt að hún upplifi að á sig sé hlustað og held ég að þarna tapist þráðurinn oft. Þetta snýst ekki um að ef kona hefði upplifað að á sig væri hlustað að þá hefðu allar niðurstöður og útkomur verið öðruvísi. Þetta snýst ekki heldur um að konur telji sig vita betur en fagfólk eða geri lítið úr starfi og þekkingu fæðingalækna og ljósmæðra, þess þó heldur.

Þetta snýst um þessa sérstöku virðingu gagnvart konum á viðkvæmustu stigum lífs þeirra. Þetta snýst um að kona upplifi sig vera með í ráðum þegar kemur að henni og hennar barni. Þetta snýst um að kona finni fyrir virkri hlustun fagaðila og þar með öryggi að hennar upplifun skipti máli. Þetta snýst um að konur eiga ekki að þurfa að vera dónalegar, kröfuharðar og krefjandi til að vera teknar trúanlegar.

Meðgöngu og fæðingarferlinu líkur ekki þegar barnið kemur í heiminn en það er raunverulegt heiti yfir ferlið, fjórði þriðjungurinn(e.fourth trimester). Við getur tekið heilmikið uppgjör. Sumar konur syrgja útkomuna á ferlinu, aðrar syrgja ferlið sitt vegna þess að það var ekki eins og þær höfðu séð fyrir sér. Sumar konur þurfa lítið sem ekkert að gera upp.

Sjálf upplifði ég mig hafa brugðist barninu mínu. Uppgjörið mitt var heilmikil sorg en ég syrgði meðgönguna því hún var langt frá því sem ég hafði hugsað mér. Fæðinguna hafði ég alltaf séð í hyllingum að myndi bæta upp fyrir slæma meðgöngu, en það brást. Ég var svekkt út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki staðið upp fyrir barninu mínu og mér. Ég var reið yfir því að hafa ekki verið dónaleg og krafist frekari rannsókna fyrr vegna þess að tilfinningin mín var svo sterk að ekki væri allt í lagi - sem það var ekki. Dóttir mín var smá þegar í heiminn kom og þar kom tilfinningin að ég hefði brugðist henni svona heiftarlega. Hverskonar móðir getur ekki nært barnið sitt? Á meðan það var ennþá í bumbunni meira að segja? Þessi tilfinning var allsráðandi og varð til þess að brjóstagjöfin varð íþyngjandi og minn helsti kvíðavaldur vegna þess að ég upplifði mig hafa brugðist henni þegar kom að næringu á meðgöngunni. Ég elskaði dóttur mína meira en allt en mér fannst erfitt að horfa á hana oft vegna þess hvað þessi tilfinning var sterk. Ég brást henni, áður en hún kom í heiminn.

Ég tók ákvörðun strax að ég ætlaði að vinna úr reynslunni minni og er ég fyrst núna, ári síðar farin að hugsa fallega til sögunnar okkar og þykja vænt um hana. Það tók fjölda tíma hjá sálfræðingi, tárvotar sturtuferðir, mörg samtöl við fólkið mitt og andvökunætur að hugsa til reynslunnar og ég get í dag sagt að ég þurfti einfaldlega að syrgja mína reynslu. Ef ég hefði upplifað að á mig væri fyllilega hlustað hefði ég ennþá þurft að vinna úr minni reynslu en mögulega hefði þessi stóri þáttur í mínu uppgjöri að upplifa mig eina í heiminum og að enginn hlustaði á mig ekki íþyngt mér svona og mögulega breytt útkomunni - maður veit aldrei en ég hef það alltaf á bak við eyrað.. Hvað ef? 

Á öllum sviðum samfélagsins gerast mistök eða verkferlar samsvara ekki stöðunni eins og hún er í dag. Þá er mikilvægt er að þau séu viðurkennd og unnið með þau til að styrkja og bæta kerfið okkar. Í dag vitum við að meðganga og fæðingar geta verið ánægjulegar og fallegar. Við vitum það vegna þess að við höfum allskonar tæki og tól til að greina og takmarka hættur, bæði fyrir móður og barn. Með þessari vitneskju þurfum við að vera tilbúin til þess að nýta þau tæki og aðferðir til auka líkurnar á farsælli upplifun móður af reynslunni. Í dag vitum við mikilvægi þess að konu líði vel eftir barnsburð. Það er úrelt, þreytt og niðrandi að segja við konu sem á erfiða upplifun en jákvæða útkomu: ,,Já en sjáðu, þú ert með þetta dásamlega og heilbrigða barn hérna”. Svona ummæli getur dregið uppgjörið verulega á langinn vegna þess að konu finnst hún ekki ,,mega” líða eins og henni líður vegna þess að hún er vissulega þakklát fyrir heilbrigt barn.

Ljáðu mér eyra var sett á koppinn fyrir konur sem ganga í gegnum erfiðar meðgöngur og/eða fæðingar og þurfa samtal um það. Þetta er fallegt og mikilvægt verkefni en biðlistinn er gríðarlega langur en hann er í kringum 6 mánuði. Á meðan þurfa konur ýmist að sækja fagaðstoð sjálfar og borga fyrir slíka þjónustu eða bíða þessa 6 mánuði eftir viðtali, en þessir 6 mánuðir geta skipt sköpum ef eitthvað í þeirra upplifun hefur áhrif á tengslamyndun við barnið eða almenna vanlíðan móður. Ekki allar konur vita af Ljáðu mér eyra eða finnast sín reynsla ekki nógu slæm til að ræða hana. Í ungbarnavernd fá mæður lista sem þær haka við það sem á best við, en þessi listi á að taka mið af andlegri stöðu móðurinnar. Listinn er settur fram sem algjört formsatriði á milli mælinga barnsins þar sem líðan konu er einfaldlega ekki í forgangi og oft hefur hún ekki tækifæri til að líta inn á við og átta sig á raunverulegri líðan.

En ef konur upplifðu að sér væri ljáð eyra í öllu ferlinu og eitthvað net tæki við sem veitti þeim öryggi varðandi eigin líðan og uppgjörið eftir barnsburð?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×