Skoðun

Börn eiga alltaf að njóta vafans

Hólmfríður Árnadóttir skrifar

Enginn og ekkert gefur fullorðnum rétt til að beita börn ofbeldi. Slíkt er skýlaust brot á réttindum barna til uppeldis og umhverfis sem er styðjandi og verndandi, já og sjálfra barnaverndarlaga. Ekkert réttlætir slíkt en allt mælir gegn því. Ef við lítum til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var árið 2013 eiga börn rétt á vernd gagnvart hvers kyns ofbeldi en um leið rétt á hvers konar leiðsögn, virðingu, jöfnuði, aðlögun og þroska. Hvað varðar skólaumhverfið segja lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla og námskrár þeirra slíkt hið sama og ekki má gleyma siðareglum sem við kennarar eigum að starfa eftir. Samt virðist reglulega brotið á börnum, samt loga athugasemdarkerfi af gerendameðvirkni sem bera börn sökum og afsaka gerðir fullorðinna.

Ég vil meina að grunnskólaárin í lífi barna séu mestu mótunarár þeirra, að í skjóli grunnskólans, sem í dag má skilgreina sem velferðarstofnun auk þess að vera menntastofnun, megi þau gera mistök og læra af þeim. Innan skólans fái þau stuðning og hvatningu, tækifæri til að efla hæfileika sína og sinna áhugamálum og fara á eigin hraða og þroska í gegn um leik og nám. Börn eiga líka skýlausan rétt á því að ekki sé fjallað um þeirra einkamál, að um hagi þeirra, atgervi, athafnir og aðstæður ríki trúnaður. Skjólið er þeirra, okkar fullorðinna að hlífa, annast, ala upp (já það er nefnilega hlutverk okkar allra) og mennta; enda ótal markmið námskráa sem snúa að vellíðan barna, því barni sem líður vel tekst betur að einbeita sér að námi, leik og starfi. Þar koma margir þættir að, samstarf heimila og skóla er einn þeirra og um leið sá mikilvægasti því saman stefnum við að vellíðan og námi barnanna okkar allra. Börnin okkar eiga nefnilega það besta skilið.

Höfundur er menntunarfræðingur og skólastjóri.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×